Appelsínugular og gular veðurviðvaranir gærkvöldsins runnu út seint í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá vakthafandi veðurfræðingi, Harald Eiríkssyni, er lægðin sem olli illviðrinu í gær nú stödd við Snæfellsnes, en hefur grynnst mikið.
„Hún er búin að blása að mestu úr sér en dælir úr sér skúrum og slydduéljum á Suður og Suðvesturlandi í dag. Þetta er bara strekkingsvindur,“ segir Haraldur
Lægðin sem nú er að klára gerir það í dag og svo á morgun þá nálgast önnur lægð landið með rigningu og öðru tilheyrandi.
„Þær koma hérna ein af annarri,“ segir hann og telur að eftir helgi gæti orðið eitthvað lát á rigningunni eftir helgi.
„Lægðin í gær var slæm en þær sem koma á eftir eru nær því að vera eðlilegar,“ segir hann að lokum.
Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var eitthvað um tilkynningar í gær vegna foks og tilkynnt um þakplötu sem losnaði af í Kópavogi.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að um tíu í gærkvöldi hafi allt róast og að björgunasveitarfólk hafi flest verið komið til síns heima um það leyti. Engar tilkynningar eða útköll voru vegna veðurs í nótt.
Enn snjór á Ísafirði
Veðrið var hvað verst á Vestfjörðum í gærkvöldi en róaðist um kvöldmatarleyti.
„Þetta gekk yfir í gær í rólegheitum. Það fór að hægja á um sjö- eða áttaleytið,“ segir Hlynur Snorrason hjá lögreglunni á Vestfjörðum.
Hann segir að lögreglan hafi ekki sinnt neinum alvarlegum útköllum og að fólk hafi sinnt fyrirmælum og leiðbeiningum.
Snjórinn er að sögn Hlyns enn á götunum en miðað við veðurspánna ætti hann ekki að halda lengi.
