Pétur Tyrfings­son, sál­fræðingur og fyrr­verandi for­maður Sál­fræðinga­fé­lags Ís­lands, segir að með því að skil­greina streitu sem heila­sjúk­dóm sé verið að hlut­gera vanda­málið og færa það yfir á ein­stak­linginn sem við það glímir.

Í færslu sem Pétur birti á Face­book í kvöld gagn­rýnir hann að­stand­endur Streitu­skólans, þeirra á meðal geð­lækninn Ólaf Þór Ævars­son, sem hefur kallað sjúk­lega streitu „sjúk­dóm heilans“.

Í færslunni vísar Pétur einnig í við­tal við Ragn­heiði Guð­finnu Guðna­dóttur, fram­kvæmda­stjóra Streitu­skólans, á K100 frá því á síðasta ári, þar sem hún segir að sjúk­leg streita sé í raun heila­bil­un. Tal af þessu tagi segir Pétur vera „rökleysu“.

Samfélagsbreytingar fremur en breytingar í heila

„Á­stæða er til að vara við rugli og kukli sem þessu,“ skrifar Pétur og í­trekar í sam­tali við blaða­mann. Hann spyr hvort að allt það fólk, sem þjáist af streitu, sé með bilun í heila og ráði þar af leiðandi ekki við streituna.

Því fari fjarri svarar Pétur sjálfur og talar um hug­takið „kulnun“ sem tísku­heiti. Streita hafi hins vegar farið vaxandi svo um munar. „Er það fremur vegna sam­fé­lags­breytinga en breytinga í heil­brigði heilans í hverjum og einum,“ segir hann.

„Streita er sam­kvæmt skil­greiningu við­brögð fólks við krefjandi verk­efnum,“ segir Pétur og bætir þau að slík verk­efni séu mjög fjöl­breytt. Hann tekur nokkur dæmi. Til dæmis geti ungt fólk í leit að fyrstu fast­eign fundið fyrir streitu, fólk sem nær ekki endum saman undir lok mánaðar eða þeir sem þurfa að fylgjast með for­eldrum sínum fá ó­við­unandi heil­brigðis- og bú­setu­úr­ræði á gamals aldri.

Vandamálin vegna streitu fjölbreytileg

Ofan á þetta bætast síðan við hin ýmsu vanda­mál, stór sem smá, sem á okkur herja á degi hverjum. Allt telur þetta, og safnast saman að sögn Péturs, með aukinni streitu og van­líðan ein­stak­lingsins.

Vanda­mál fólks vegna streitu eru mjög fjöl­breyti­leg að hans sögn og til þess að að­stoða hvern og einn þarf að byggja ráð­gjöf og hugsan­lega með­ferð á sér­stakri lífs­sögu, að­stæðum, gildis­mati og lífs­við­horfum hvers og eins.

„Og þetta er verk þeirra sem hafa kunn­áttu til þess en ekki þeirra sem búa til eitt nafn yfir þessi fjöl­breyti­legu fyrir­bæri (því þau eru nefni­lega mörg), hlut­gera svo þetta nafn, kalla það sjúk­dóm sem er óðara orðinn að or­sök vandans,“ segir hann að lokum.

Ólafur Þór var sem fyrr segir til við­tals um streitu í til­efni af á­taki VR um svo­kallaða kulnun, eða bur­nout líkt og það kallast á ensku. Hann sagðist merkja fjölgun á slíkum til­vikum hér á landi og að þörf sé á hugar­fars­breytingu hjá Ís­lendingum.

„Að við horfumst í augu við það að við þurfum að hvílast, lausnin er ekki bara að vinna meira og meira. Það þarf hugar­fars­breytingu um for­gangs­röðun og gildi í lífinu,“ sagði Ólafur, en við­talið má lesa í heild hér.