„Núverandi fyrirkomulag leghálsskimunar hjá íslenskum konum stangast á við lög um heilbrigðisþjónustu, þar sem kveður á um að allir landsmenn skuli … eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegri, líkamlegri og félagslegri heilbrigði.

Þetta er meðal þess sem stendur í bréfi frá stjórn Félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna sem sent var til umboðsmanns Alþingis um síðustu mánaðarmót.

Innan við tveggja vikna bið hérlendis

Þar segir fagleg rök skorti fyrir flutningi sýna til útlanda og segir stjórnin að hér á landi sé fagleg þekking til staðar, reynsla og nauðsynlegur tækjabúnaður og mögulegur svartími sýna gæti verið innan við 2 vikur séu sýnin greind á Íslandi.

Við flutning sýna til Danmerkur hefur skapast aukin áhætta því að ótal milliliðir meðhöndla sýnin og fara með heilbrigðisupplýsingar. Þetta segir bréfinu og á þeim tímapunkti hafi eingöngu borist niðurstöður sýna sem tekin voru í janúar og febrúar. Bent er á að niðurstöður sýna sem tekin voru 5. janúar hafi ekki legið fyrir fyrr en næstum fimm mánuðum frá sýnatöku.

Geta ekki flett upp í gagnagrunninum

Gagnagrunnur er ófullkominn. ”Þrátt fyrir að læknum hafi borist niðurstöður úr sýnum sem tekin voru í janúar og febrúar á þessu ári þá liggja þær niðurstöður enn ekki fyrir í gagnagrunni landlæknis,” segir í erindinu og að heilbrigðisstarfsfólk geti því ekki flett upp niðurstöðunum. Bent er á að aðeins hluti kvennanna hefur fengið niðurstöður úr skimuninni á þjónustuvefnum island.is.

“Það er því fjarri lagi að hér sé boðið upp á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem völ er á,” segir í bréfi stjórn félags íslenskra fæðinga- og kvensjúkdómalækna til umboðsmanns.