Í júní og júlí hefur lyfinu Rohypnol verið ávísað rúmlega hundrað sinnum, og það sem af er ári tæplega 350 sinnum. Þetta kemur fram í upplýsingum frá lyfjastofnun,  en lyfið er ekki með markaðleyfi frá stofnuninni og er því ávísað með undanþágu.

Rohypnol er svefnlyf, en er þekkt sem „nauðgunarlyfið“ hérlendis, en erlendis kallast það gjarnan „Forget me pill“. Líkt og nöfnin gefa til kynna hefur lyfið verið notað í misjöfnum tilgangi, til að mynda til byrlana.

Á vef bandarísku fíkniefnalögreglunnar er því lýst að fólk falli í óminni ef þeim er byrlað Rohypnol og getur það enga björg sér veitt eða mótspyrnu.

Það sem af er ári hefur Rohypnol verið ávísað með undanþágu í hverjum mánuði. Oftast í maí, 64 sinnum, og minnst í janúar, 25 sinnum. Síðustu tvo mánuði, júní og júlí, hefur því annars vegar verið ávísað 53 sinnum og hins vegar 50 sinnum.

Markaðsleyfið fellt niður árið 2021

Líkt og áður segir er lyfið ekki með markaðsleyfi á Íslandi en það er er grundvöllur til þess að selja megi lyf hér á landi. Á vef Lyfjastofnunar segir að þegar að skortur komi upp á markaði geti reynst nauðsynlegt að ávísa lyfjum sem ekki hafi markaðsleyfi og kallast þau lyf undanþágulyf.

Í umfjöllun Fréttablaðsins um Rohypnol frá því í fyrra segir að lyfinu hafi verið ávísað frá því það fékk íslenskt markaðsleyfi árið 1992. Það hafi þó verið þó tekið af markaði í byrjun árs 2020 og markaðsleyfið var svo fellt niður þann í byrjun árs 2021.

Í svari Lyfjastofnunar fyrir ári, þar sem spurt hvar hvers vegna lyfið væri enn í umferð, segir að mjög mismunandi sé hvaða svefnlyf henti einstaklingum hverju sinni.

Byrlanir hafa verið til mikillar umræðu síðustu misseri, þá sérstaklega síðasta haust og í vetur. Sú umræða varpaði til að mynda ljósi á það að byrlun væri ekki skilgreind sem sjálfstætt brot í refsilöggjöf og því væri ekki til sérstök skilgreining í kerfum lögreglu sem varði byrlun lyfja.

Það þýðir jafnframt að engin tölfræði sé til um hve margir hafa verið handteknir eða ákærðir vegna gruns um byrlun á undanförnum árum.