Meðal þeirra 25 undanþágulyfja sem oftast var ávísað í aprílmánuði var svefnlyfið Rohypnol (Flunitrazepam Mylan) eða í 59 skipti, samkvæmt yfirliti Lyfjastofnunar. Markaðsleyfi lyfsins hér á landi var fellt niður í byrjun árs og framleiðslu þess hætt samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun. Enn er lyfið þó í umferð.

Lyfið hefur lengi verið notað og stundum gengið undir hinu alræmda heiti „nauðgunarlyfið“. Það hefur gengið undir ýmsum merkjum hjá notendum erlendis eins og „Forget Me Pill“ eða „Gleymmér pillan“, og lesa má á um á vef fíkniefnalögreglu Bandaríkjanna (DEA). Fórnarlömbin falla í óminni ef þeim er byrlað lyfið og geta enga björg sér veitt eða mótspyrnu.

Þekkt er að erfitt er að sanna byrlun með Rohypnol því leifar efnisins eru fljótar að fara úr líkamanum. Enn koma upp tilfelli á Neyðarmóttöku Landspítalans þar sem frásögn brotaþola vekur grunsemdir um að byrlun hafa orðið, miðað við magn áfengis sem brotaþoli innbyrti eða þá að hann neytti ekki neins áfengis en féll samt í óminni. Samkvæmt Neyðarmóttökunni eru sýni einungis send lögreglu í tilvikum þar sem kæra liggur fyrir.

Samkvæmt Lyfjastofnun hefur Rohypnol verið ávísað frá því það fékk íslenskt markaðsleyfi árið 1992. Lyfið var þó tekið af markaði í byrjun árs 2020 og markaðsleyfið var svo fellt niður 1. febrúar síðastliðinn. Undanfarin tvö ár hefur lyfið verið afgreitt með undanþáguávísunum.

Í svari Lyfjastofnunar um hvers vegna lyfið er enn í umferð segir að mjög mismunandi sé hvaða svefnlyf henti einstaklingum hverju sinni.

„Sumir læknar hafa óskað eftir undanþágu um notkun þess fyrir sína sjúklinga, enda getur verið erfitt og langt ferli að trappa fólk af lyfinu, með hættu á fráhvörfum og tengdum heilsufarsafleiðingum,“ segir í svarinu og þar sem Rohypnol sé óskráð lyf beri læknir sem ávísar lyfinu ríkari skyldur en annars í því að fræða sjúklinginn um notkun þess.

Í svari Lyfjastofnunar segir að 59 ávísanir á lyfið sé ekki meira en vanalega en sveiflur eru aðeins á milli mánaða. Ávísanir í apríl voru nokkuð minni en í mars og janúar en sambærilegar á við febrúar. Ekki beri á aukningu á ávísunum.

Stofnunin vinnur eftir því að aðeins séu samþykktar ávísanir fyrir einstaklinga sem þegar eru á lyfjameðferð með lyfinu, eða mjög sérstakar ástæður eru gefnar af umsækjanda, það er lækni viðkomandi einstaklings