Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að áhrif stríðsins og sú gjá sem myndast hefur milli vesturveldanna og Rússlands muni vara í langan tíma. Katrín sótti neyðarfund Atlantshafsbandalagsins í Brussel í gær vegna stríðsins í Úkraínu. Einnig fara neyðarfundir Evrópusambandsins og iðnríkjanna sem mynda G7 fram í borginni.

„Það hefur orðið skýrt rof í samskiptunum við Rússland eftir þessa innrás,“ segir Katrín. Telur hún ólíklegt að samið verði um frið í Úkraínu í bráð. Þó svo færi væri óneitanlegt að gjáin væri orðin dýpri.

„Að sjálfsögðu vona ég að þetta stríð dragist ekki á langinn. Staðan er hræðileg, fjöldi fólks á flótta, að berjast og deyja. Það er vilji okkar allra og von að þessu stríði ljúki sem fyrst. Því miður óttast ég að áhrifin verði töluverð og til lengri tíma,“ segir hún.

NATO hefur verið gagnrýnt fyrir að beita sér ekki með ákveðnari hætti, en á neyðarfundinum var það ítrekað að bandalagið myndi ekki beita sér með beinum hætti gegn Rússum. Þó verður Úkraína studd enn frekar með búnaði, þar á meðal hergögnum, en einnig mannúðar­aðstoð og móttöku flóttafólks.

Ákveðið var að auka enn á viðbúnaðinn austan megin í bandalaginu, eftir skýrt ákall frá leiðtogum þeirra ríkja. Þá var ákveðið að framlengja skipunartíma Jens Stolten­berg, hins norska framkvæmdastjóra NATO, sem átti að taka við sem seðlabankastjóri í heimalandinu í haust.

Deilt hefur verið um hversu miklum árangri viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum skili. Aðspurð um þetta atriði segir Katrín leiðtogana sannfærða um að þær séu að virka, enda séu þær mun umsvifameiri en áður hafi sést.

Full samstaða

„Stríðið hefur nú staðið yfir í mánuð og allir vissu að það myndi taka einhvern tíma fyrir þær að virka,“ segir Katrín. „Hér er full samstaða um að það hafi verið mjög mikilvægt að fara út í þessar þvingan­ir og að halda þeim til streitu.“

Meðal þess sem kom fram hjá Stoltenberg í gær var að ef Rússar beittu efnavopnum gæti það knúið NATO til þess að skerast í leikinn með beinum hætti, það er vegna hættunnar á að eitrun bærist til NATO-ríkja. Ljóst er því að stigmögnun stríðsorðræðunnar heldur áfram. Enn er líka rætt um kjarnavopn og mögulega notkun Rússa á taktískum kjarnaoddum.

„Raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir er að sú ógn er alltaf fyrir hendi,“ segir Katrín um kjarnorkuvána.

„Hún minnir okkur á það núna, frekar en nokkru sinni fyrr, hversu mikilvægt það er að eftirlit með kjarnavopnum sé fyrir hendi og raunverulegir samningar um afvopnun.“