Stefnt er á að hraða 400 til 500 þjónustuferlum í stjórnkerfinu meðal annars biðröðinni eftir vegabréfum en sú röð hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar komist í fréttirnar fyrir seinagang.

Áætla má að þjóðhagslegur ávinningur sem hlýst af tímasparnaði, styttri málsmeðferð og jákvæðum umhverfisáhrifum vegna lægri prent- og sendingarkostnaðar geti numið allt að 30 milljörðum króna á ári næstu fimm árin. Það kostar jú sitt að bíða heilan vinnudag eftir afgreiðslu vegabréfa.

Liður í viðamiklum aðgerðum ríkisstjórnarinnar

Einnig á að koma öðrum stofnunum úr moldarkofunum og hraða þjónustuferlum sem meðal annars snúa að leyfisveitingum fyrirtækja, fjölskyldu- og forræðismálum hjá sýslumönnum, rafrænum þinglýsingum og stafrænum umsóknum um vegabréf og fæðingarorlof.

Umfangsmikil aukning fjárfestingar í tækni, stafrænum lausnum og betri upplýsingakerfum í þágu einstaklinga og fyrirtækja var í dag samþykkt af þingflokkum stjórnarflokkanna. Aukningin er hluti af 15 ma. kr. fjárfestingaátaki sem kynnt var um liðna helgi og er liður í viðamiklum aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna kórónaveirunnar.

Alls verða framlög aukin um 1.350 m.kr. á árinu 2020 til verkefna á sviði nýsköpunar, upplýsingatækni, netöryggis og stafrænnar þjónustu, samkvæmt þingsályktun fjármála- og efnahagsráðherra sem rædd verður á Alþingi nú í vikunni.