Dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu kusu nýjan forseta dómsins í dag og það er íslenski dómarinn Róbert Spanó sem sitja mun í forsæti dómsins næstu tvö ár. Hann tekur við embættinu af gríska dómaranum Linos-Alexandre Sicilianos.

Róbert hefur verið varaforseti dómsins síðastliðið ár en hann var tók sæti við dómstólinn í nóvember 2013 og hefur því gegnt dómaraembætti við dómstólinn í rúm sex ár. Áður en hann var kjörinn varaforseti réttarins hafði hann gengt forsæti í sinni deild um tveggja ára skeið.

Róbert er 47 ára gamall. Hann útskrifaðist með lagapróf frá Háskóla Íslands árið 1997 og með meistarapróf í Evrópurétti og samanburðarlögfræði frá Oxford árið 2000.

Róbert var skipaður lagaprófessor við Háskóla Íslands í nóvember árið 2006 og gengdi stöðu forseta lagadeildar um þriggja ára skeið áður en hann tók sæti við Mannréttindadómstólinn.