Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, hefur ákveðið að gefa kost á sér í forvali Vinstri grænna í Suðurkjördæmi. Þetta kemur fram í myndbandi sem Róbert birtir á Facebook í dag en þar er hann staddur ofan af Holtavörðuheiði þar sem hann var í útilegu á vegum Ferðafélags Íslands.

Hann segir nokkrar ástæður vera fyrir því að hann hafi ákveðið að gefa kost á sér í forvalinu sem fer fram í apríl. „Sú fyrsta er auðvitað að mig langar að styðja við það góða starf sem unnið hefur verið á vettvangi ríkisstjórnarinnar,“ segir Róbert og nefnir þar sérstaklega ráðherra VG.

„Þau hafa öll sem eitt, Svandís, Katrín og Mummi, staðið sig með afbrigðum vel,“ segir Róbert en hann segist einnig hafa velt málinu fyrir sér frá því að hann hætti á þingi fyrir fimm árum. „Þetta togar ennþá ég finn það. Það eru málefni sem ég brenn fyrir og mig langar allavega að gefa kost á mér.“

Katrín Jakobsdóttir réð Róbert sem upplýsingafulltrúa ríkisstjornarinnar í mars í fyrra. Hann hefur áður verið á þingi bæði fyrir Samfylkinguna og Bjarta framtíð.

Kolbeinn vill líka 1. sæti

Hann mun þannig fara upp á móti Kolbeini Óttarssyni Proppé, þingmanni VG, sem tilkynnti í janúar að hann myndi gefa kost á sér í 1. sæti listans, og Hólmfríði Árnadóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla, sem tilkynnti framboð sitt í nóvember.

Ari Trausti Guðmundsson, sem áður leiddi listann í kjördæminu, hefur aftur á móti tilkynnt að hann muni ekki gefa kost á sér í ár.

„Listanum væri svo sannarlega sómi að því að hafa þau í oddvitasæti líka. Ég er svo sannarlega ekki að keppa við þau. Ég er í rauninni bara að gefa kost á því að ég sé valinn til að leiða listann,“ segir Róbert og bætir við að fram undan sé vandasamur tími í íslenskri pólitík og það þurfi allar hendur á dekk.

Uppfært:

Í fyrri útgáfu fréttarinnar gleymdist að nefna Hólmfríði Árnadóttur sem einnig hefur tilkynnt framboð sitt í kjördæminu.