Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, segir kröfu dýraverndunarsinna um rjúpnaveiðibann vera úr lausu lofti gripna, enda ógni veiðimenn ekki stofninum, heldur miklu fremur náttúrulegar sveiflur, rétt eins og vistfræðingar hafi bent á.

Fréttablaðið hefur síðustu daga fjallað um afkomu rjúpnastofnsins á Íslandi, en samkvæmt mælingum er hann sá minnsti frá því mælingar hófust 1995 – og telja Jarðarvinir, sem berjast gegn veiðinni, að hann sé nú minni en árið 2002 þegar þáverandi umhverfisráðherra afréð að banna veiði um nokkurra ára bil.

Áki Ármann segir þá friðun engu hafa skilað enda enginn samanburður til staðar til að meta árangur af henni. Veiðidögum hafi hins vegar fækkað eftir 2005, úr 69 niður í 22 og sölubann sett á. Einnig hafi áróður Skotvís um hóflegar veiðar borið árangur því nú heyri magnveiði sögunni til.

Veiðin hafi dregist saman um 50 til 60 prósent frá árunum fyrir sölubann og veiðiálagið minnkað úr 30 prósentum niður í liðlega 10 prósent.

Áki Ármann Jónsson er formaður Skotvís.

Þessu andæfir Ole Anton Bieltvedt, formaður Jarðarvina, sem berst fyrir alfriðun rjúpunnar, en hann segir Skotvís láta einskis ófreistað til að réttlæta veiðar sínar og dráp á saklausum og varnarlausum dýrum, sér til skemmtunar:

„Nú fullyrða þessir menn að veiðar fimm þúsund manna hafi engin áhrif á stofn rjúpu. Þetta er auðvitað hrein fásinna,“ segir Ole Anton, en það sannist best á því að stofn rjúpu, sem var hruninn vegna veiða árið 2002, hafi rokið upp við friðun 2003 og 2004, rétt eins og upplýsingar vistfræðinga sýni.

Áki Ármann lætur þessi orð ekki slá sig út af laginu: „Rjúpunni stafar lítil ógn af okkur veiðimönnum þegar stóra myndin er skoðuð, og vel að merkja, hafi menn áhyggjur þá er þegar búið að grípa til róttækustu aðgerða í þessum efnum sem sögur fara af, en veiðin nú er tvöfalt minni en fyrir veiðibannið,“ segir Áki Ármann og leggur áherslu á að félagsmenn Skotvís vilji umfram allt stunda ábyrgar veiðar.

„Það skal þó sagt hér að viðkomu rjúpunnar hefur hrakað mikið á nýrri öld, frá því að hún var með 8,6 unga að meðaltali niður í 6,4. Það er mjög alvarlegt og þarf að rannsaka betur,“ segir Áki Ármann og áréttar að veiðin hafi líka minnkað, eða úr 69 þúsund rjúpum, fyrir veiðibann, í 20 til 30 þúsund eftir það.

En óttast hann að umhverfisráðherra láti undan þrýstingi og banni rjúpnaveiðar í vetur? „Nei,“ segir hann, „enda eru veiðarnar sjálfbærar að mati Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar að teknu tilliti til varúðarreglu – og á meðan svo er veiðum við rjúpu.“