Dúi Landmark, fyrrverandi formaður Skotvís og höfundur bókarinnar Gengið til rjúpna, sem kom út á dögunum, hefur kynnt sér þróun veiðanna á þessari og síðustu öld og segir tölurnar tala sínu máli, síðustu tvö árin fyrir aldamót hafi veiðin á Austurlandi, sem jafnan hefur gefið landsvæða mest af rjúpu, verið yfir 48 þúsund fuglar, sem er litlu minna en árleg heildarveiði er nú á landinu öllu.

„Núna er veiðin hvað slökust á Austurlandi, rétt eins og á síðasta ári,“ segir Dúi, „sem er þvert á það sem veiðimenn hafa vanist á síðustu árum og áratugum, en víðast hvar annars staðar er hún áþekk því sem við eigum að venjast frá síðustu árum, vissulega dræm en þó eitthvað af fugli. “

Fréttablaðið hefur spurnir af allnokkrum hópum rjúpnaveiðimanna sem hafi farið saman í helgarveiði á þeim svæðum á landinu sem hafa jafnan gefið mest, en þau er einkum að finna á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, en komið þaðan tómhentir, ýmist einn úr hópnum og stundum fleiri.

Það er hverfandi þjóðarsport meðal Íslendinga að veiða sér í jólamatinn.
Fréttablaðið/Vilhelm

„Þetta verður ekki gott rjúpnaveiðiár, það er alveg ljóst,“ segir Dúi og bendir á að afkoma stofnsins sé með öðrum hætti en menn hafi vanist frá því á árum áður. „Sveiflurnar voru reglubundnar, tíu ár liðu yfirleitt frá því veiðin var hvað mest þar til hún hrundi, en nú vara sveiflurnar skemur.“ Þannig hafi árin 2017 og 2018 gefið vel af sér, þvert á árið í ár og árið þar á undan.

„Greiningin hefur líka leitt í ljós að vandamál rjúpnastofnsins virðast liggja í lifun unga eftir útungun og fram að veiðitíma,“ segir Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís, og bætir við: „Þannig eru núna að jafnaði um 6,4 ungar á hænu á lífi í lok ágúst, en voru allt að 8,6 ungar fyrir 30 árum. Það segir sig sjálft að svona hrun í viðkomu hefur mikið að segja og því verða topparnir ekki háir.“

Ef enn frekar er rýnt í rjúpnaveiðitölur nýrrar aldar, sést að frá aldamótum hrundi veiðin, fór úr ríflega 150 þúsund fuglum 1999, í 129 þúsund 2000, 101 þúsund 2001 og tæplega 78 þúsund fugla 2002, en ári seinna var rjúpnaveiði bönnuð af þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttur, en veiðin hófst svo aftur af krafti haustið 2005. Síðan þá hefur veiðin verið á milli 35 og 80 þúsund fuglar, allt þar til í fyrra þegar veiðin var skorin niður í 25 þúsund og í ár var heimildin þrengd enn frekar, í 20 þúsund fugla.

„Eftir að sölubann á rjúpu var sett á 2005 og biðlað var til veiðimanna um að stunda hóflegar veiðar, minnkaði veiðiálagið að jafnaði um helming,“ segir Áki Ármann og bætir við: „Nú heyrir það til undantekninga að veiðimenn séu í magnveiði. Flestir eru að veiða 5-15 rjúpur. Í hámarksárum rjúpu er auðvitað meira veitt, en það virðist sem mettun verði þegar veiðin nálgast 60 þúsund fugla,“ segir hann.