Rjúpnastofninn mælist nú sá minnsti frá því mælingar hófust 1995. Vorstofninn var áætlaður 69 þúsund fuglar og veiðistofninn nú á haustdögum er talinn vera 248 þúsund fuglar, sem merkir að þar af eru 179 þúsund ungar.
Þetta staðfestir Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, í samtali við Fréttablaðið. Stofninn sé í neðstu mörkum, hliðstætt því sem var 2002 og 2003, en einmitt þá afréð þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, að banna rjúpnaveiðar.

Ólafur Karl segir að Náttúrufræðistofnun skili Umhverfisstofnun skýrslu um rannsóknir sínar og það sé svo síðarnefndu stofnunarinnar að láta umhverfisráðherra í té minnisblað um þær tillögur sem hún telur ráðlegar. „Okkar hlutverk er að lýsa ástandinu á eins trúverðugan máta og við getum,“ segir Ólafur Karl. „Og okkar tillaga er að veiða ekki fleiri en 20 þúsund fugla nú í nóvember þegar veiðitímabilið byrjar, sem eru þá á bilinu fjórar til fimm rjúpur á hvern veiðimann, en reynslan sýnir að fjöldi veiðimanna, þegar stofninn er lítill, er í kringum fjögur þúsund, þriðjungi minni en þegar stofninn er stór.“
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur umhverfisráðherra ekki enn borist minnisblað Umhverfisstofnunar, en það er hans að ákveða veiðina, eða eftir atvikum veiðibann, í ljósi rannsókna og túlkana undirstofnana á þeim.

Niðurstöður rjúpnatalninga vorið 2021 sýna að rjúpum fækkaði um allt land á árunum 2020 og 2021. Í gögnum Náttúrufræðistofnunar segir enn fremur að miðað við stofnþróun síðustu ára á Suðurlandi, Norðvesturlandi, Norðausturlandi og Austurlandi megi gera ráð fyrir að þar verði stofninn í lágmarki næsta eða þarnæsta vor, 2022 eða 2023.
„Sveiflurnar eru náttúrulegt fyrirbæri,“ segir Ólafur Karl. „Það er aldrei nokkur kyrrstaða á þessum efnum. Þessu ræður fálkinn sem étur býsn af rjúpu, fæðuframboð og heilbrigði fuglanna, en sníkjudýrasýkingar hrjá oft fuglinn.“
Ólafur Karl óttast aftur á móti ekki ofveiði, enda þótt veiðin fari iðulega fram úr ráðgjöf. „Reynslan sýnir að yfirleitt er veitt um þriðjung umfram það sem ráðlagt er, en síðustu sextán, frá því veiði var bönnuð, hafa veiðimenn almennt hagað sér af skynsemi við veiðarnar.“
Þessu er Ole Anton Bieltvedt, formaður Jarðarvina, algerlega ósammála, en félagið berst fyrir dýravernd af öllu tagi.