Icelandair réði á föstudag flugfreyjur og flugþjóna til starfa á ný. Þvert á áratugahefð fyrirtækisins var starfsaldur ekki látinn ráða. „Félagið er algerlega á mótfallið þessari grundvallarbreytingu,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands en félagið hafi ekki vitneskju um hvað býr að baki.

„Að mér vitandi hefur fyrirtækið nú í fyrsta sinn ekki virt þessa hefð,“ segir Berglind og töluverður fjöldi flugþjóna, og margir með mikla starfsreynslu, bíði í óvissu um hvort það fái starf sitt aftur.

Gegnum gangandi regla

Félagið metur nú réttarstöðu sína, að sögn Berglindar en ekki er beint kveðið á um þessa reglu í kjarasamningum en þar sé þó að finna margar tilvísanir í þá hefð að fara eftir starfsaldri. „Í samningum er það gegnumgangandi stef að þessi regla skuli gilda,“ segir Berglind.

Samkvæmt svari Icelandair voru um 100 flugfreyjum og flugþjónum boðið tímabundið starf í sumar. Flugferðum er að fjölga og verður enn fjölgað í starfsmannahópnum. Í svari Icelandair segir að ráðningaferlið standi þó enn yfir og á næstunni sé áætlað að fjölga í þessum hópi enn frekar. Fyrir starfa um 200 flugfreyjur og flugþjónar hjá félaginu.

Mynd/Icelandair

Í svari við því hvers vegna ekki var farið eftir starfsaldri segir að kjarasamningar bindi ekki hendur félagsins að fara eftir hefðinni um starfsaldursráðningar: „Í ráðningaferlinu er að sjálfsögðu horft til reynslu en einnig frammistöðu sem er metin út frá skilgreindum hæfniviðmiðum, eins og í öðrum ráðningum innan félagsins þar sem kjarasamningar kveða ekki á um annað,“ segir þar.

Engin trygging virðist lengur fyrir því að starfsaldur ráði við ráðningar flugfreyja og flugþjóna
Mynd/Flugfreyjufélag Íslands

Þá segir að launakostnaður sé ekki ráðandi þáttur í ákvarðanatöku í þessu ráðningaferli heldur fremur að áhersla sé á fjölbreytileika starfsfólksins og jafnréttissjónarmiðum.

Staða flugmanna er allt önnur. Búið er að ráða rúmlega 100 flugmenn til Icelandari síðan í mars og verða samtals 187 flugmenn starfandi hjá félaginu núna í lok maí. Flugmenn eru ráðnir eftir starfsaldri þar sem kveðið er á um það Í kjarasamningi.