Verulega hefur dregið úr símtölum vegna nikótíneitrana hjá börnum eftir að eitrunarmiðstöð Landspítala varaði við slíkum eitrunum á síðasta ári. Helena Líndal Baldvinsdóttir, forstjóri eitrunarmiðstöðvar, segir að á síðasta ári hafi fjórar fyrirspurnir vegna slíkra mála borist daglega. „Við fórum í smá vinnu við að vekja athygli á þessu máli í október á síðasta ári,“ segir Helena.

„Í kjölfarið bárust engin símtöl í tæpa tvo mánuði en núna í janúar hafa símtölin verið þrjú,“ bætir hún við. Þá segir Helena börnin sem um ræðir spanna breitt aldursbil.

„Eldri unglingarnir hafa oft óvart gleypt nikótínpúðana og fá ógleði og uppköst og hringja í okkur,“ segir hún. „Yngri börnin hafa oft komist í bæði notaða eða ónotaða púða eða drukkið úr ílátum sem notuðum púðum hefur verið fleygt ofan í. Síðan berst frásog úr púðunum út í vökvann,“ segir Helena.

Ragnar Bjarnason, yfirlæknir á bráðamóttöku barna, segir að í gegnum árin hafi börn reglulega komið á deildina vegna nikótíneitrana, stærsta breytingin sé inntaka nikótínsins. „Áður fyrr voru þau að borða upp úr öskubökkum á heimilum. Nú eru reykingar innanhúss fátíðar,“ segir hann.

„Það sem gerir eitranir meira varhugaverðar er að nikótínið er í formi sem er ekki jafn ólystugt og tóbak úr öskubakka. Því geta þau innbyrt meira áður en að ógleðin og uppköstin koma,“ segir Ragnar og vísar til niktótínpúða og veipvökva.