Aðalfundur Stangaveiðifélags Reykjavíkur, SVFR, var haldinn í vikunni. Þar var kosið til stjórnar og fulltrúaráðs og í nýrri stjórn voru kosnar þrjár konur sem eru tímamót í sögu félagsins sem hefur verið starfrækt frá árinu 1939.

Jón Þór Ólason var sjálfkjörinn formaður til eins árs en Helga Jónsdóttir, Lára Kristjánsdóttir og Ragnheiður Thorsteinsson náðu kjöri til tveggja ára. Aðrir sitjandi stjórnarmenn sem ekki var kosið um nú eru þeir Halldór Jörgensson, Hrannar Pétursson og Trausti Hafliðason.

„Það er gríðarlega jákvæð þróun að það hafi þrjár konur ná kjöri í þessum félagsskap sem hefur verið fremur karllægur í gegnum tíðina. Karlar eru enn í töluverðum meirihluta félagsmanna en það er hægt og rólega að breytast í þá átt að fleiri konur eru að fá áhuga á stangaveiði og vilja láta til sín taka innan félagsins,“ segir Ragnheiður Thorsteinsson nýkjörin stjórnarmaður.

„Það er mér eðlislægt að láta til mín taka innan félagsins og þetta er ekki lokaður félagsskapur þar sem karlar hafa ekki hleypt konum að innan stjórnarinnar, síður en svo. Það er bara eðlileg þróun að eiga sér stað þar sem meira jafnvægi er að komast á í kynjahlutfalli sem er bara hið besta mál.“

Ragnheiður segir Maríu Clausen hafa verið á sínum tíma eina í stjórninni. „Ég kom inn í stjórnina fyrir um það bil áratug. Nú erum við þrjár og það eru gleðitíðindi. Það eru æ fleiri konur að kveikja á því að stangaveiði hentar alveg jafn vel fyrir karla og konur og eru að smitast af veiðibakteríunni.“

Nú séu konur farnar að láta að sér kveða í félagsskapnum. „Það þurfti að toga okkur konurnar í stjórnarstörfin, það voru engin átök í kosningunum og við erum ekki að boða neina hallarbyltingu. Þannig að það er bara allt eins og það á að vera og hlutirnir að þróast í rétta átt,“ segir Ragnheiður.