Kyle Ritten­hou­se var sýknaður af öllum á­kæru­liðum í dag eftir að kvið­dómur komst að niður­stöðu í máli hans. Ritten­hou­se myrti tvo ein­stak­linga og særði þann þriðja í ó­eirðum í Kenosha í Wisconsin sumarið 2020. Viður­kenndi hann gjörðir sínar en bar fyrir sig sjálfs­vörn.

Málið hefur klofið banda­rísku þjóðina í tvennt og orðið að miklu hita­máli hvað varðar deilur um byssu­eign, sjálf­skipaða lög­gæslu og kyn­þátta­órétt­læti.

Ritten­hou­se, sem var að­eins sau­tján ára gamall þegar mann­drápin áttu sér stað, grét og faðmaði einn af lög­mönnum sínum þegar úr­skurðurinn var kveðinn upp. Hann hefði getað átt yfir höfði sér lífs­tíðar­langan fangelsis­dóm, hefði hann verið fundinn sekur.

Kvið­dómurinn, sem var að meiri­hluta skipaður hvítu fólki, í­hugaði málið í á fjórða dag áður en hann komst að niður­stöðu.

500 þjóð­varð­liðar biðu át­tekta

Mikil ólga var í loftinu á meðan á réttar­höldunum stóð en 500 þjóð­varð­liðar biðu át­tekta á bakvakt ef til ó­eirða kæmi í Kenosha þegar úr­skurður var kveðinn upp. Tony E­vers, ríkis­stjóri Wisconsin, biðlaði til fólks um að sýna stillingu.

Hörð átök mót­­mælenda­hópa, stuðnings­manna Donalds Trump og lög­­reglu geisuðu í Kenosha í marga daga sumarið 2020 sem og í öðrum borgum víða um Banda­ríkin eftir að lög­regla skaut hinn 29 ára gamla Jacob Blake í bakið sjö sinnum með þeim af­­leiðingum að hann lamaðist.

Eftir að hafa átt í úti­stöðum við mót­mælanda skaut Ritten­hou­se mann til bana með riffli en þegar aðrir mót­mælendur gerðu að­súg að honum skaut hann tvo til við­bótar.