„Það eru umtalsverðar breytingar að eiga sér stað hjá The Reykjavík Grapevine,“ segir Valur Grettisson, fráfarandi ritstjóri fjölmiðilsins. Blaðakonan Andie Sophia Fontaine sem hefur unnið við blaðið með hléum frá 2003 lætur einnig af störfum. Hún lýsir uppsögninni sem óvæntri en segist virða ákvörðun eigenda og óskar þeim velfarnaðar í framhaldinu.

Valur segir samkomulag milli sín og eigenda um að stíga til hliðar. „Blaðið er að taka aðra stefnu og endurnýja sig. Það er ekki óeðlilegt,“ segir hann og bætir við að fimm ára líftími í starfi sé með besta móti fyrir ritstjóra á Íslandi.

„Ég kem inn í Grapevine á tíma þegar nokkur hneykslismál höfðu komið upp, en svo voru mjög góðir ritstjórar þarna inni á milli sem voru skammlífir þó,“ segir Valur. „Þá var kominn tími til að lyfta Grapevine upp úr því að vera þetta 101 götublað upp í svona aðeins borgaralegra menningarblað, eins og ég fór með það.“

Að sögn Vals verður ný stefna miðilsins tekin „í sterkari menningarlegar áttir og að minnka eitthvað í fréttum og öðru eins“.

Valur náði óvæntum og gríðarlegum árangri á nýmiðlum Grapevine í heimsfaraldrinum. „Ég asnaðist til þess að verða að YouTube-stjörnu,“ segir hann og hlær. „Við vorum með tvær milljónir notenda á einum mánuði, í allnokkra mánuði. Það var ofboðslega mikið áhorf á okkur og mest tengt eldgosinu á sínum tíma. Við höfum haldið því að miklu leyti og erum með 60 þúsund áskrifendur,“ segir hann.

Að auki stofnaði Valur svokallað newscast, fréttaþátt á netinu. „Sem ég held að enginn viti hvað er, en sem er með meira áhorf en Fréttir RÚV.“

Við vorum með tvær milljónir notenda á einum mánuði, í allnokkra mánuði. Það var ofboðslega mikið áhorf á okkur og mest tengt eldgosinu á sínum tíma.

Valur segist ekki stefna á að stofna sinn eigin fjölmiðil á næstunni eða fara í samkeppni við Grapevine. Ritstörf komi hins vegar til greina. „Maður á eiginlega ekki að segja frá þessu, það minnkar samviskubitið hjá yfirmönnum. En í hvert skipti sem ég er rekinn reyni ég að skrifa,“ segir hann. „Maður hefur verið rekinn og ráðinn svo oft í gegnum blaðamennskuna. En ég fæ ágætis tíma til þess að finna mér eitthvað annað að gera. Það langan að ég get örugglega skrifað heila skáldsögu á sama tíma.“

Jón Trausti Sigurðarson, einn stofnenda og eigenda miðilsins, hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra. „Hilmar Steinn Grétarsson var að hætta og selja sig út. Kaupandinn er bandarískur podcastari sem heitir Marcus Parks sem gefur út hlaðvarpsþættina The Last Podcast On The Left og No Dogs In Space,“ segir Jón Trausti. Fjórir aðilar fara með eignarhald miðilsins og eru hlutarnir misstórir. Nýr ritstjóri Grapevine er hin kanadíska Katherine Fulton sem meðal annars hefur unnið fyrir Toronto Star og hefur starfað við Grapevine með hléum í rúman áratug.