Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, segir að stjórn Félags fréttamanna hafi sent erindi inn á fund stjórnar RÚV þar sem fjallað var um þá kröfu Samherja að fréttamaðurinn Helgi Seljan yrði áminntur og að hann myndi ekki fjalla frekar um málefni fyrirtækisins. Var krafan sett fram í kjölfar niðurstöðu siðanefndar RÚV um að Helgi hefði gerst brotlegur við siðareglur stofnunarinnar.
„Fréttastofan verður að hafa ritstjórnarlegt sjálfstæði og ég veit að í yfirlýsingunni fólst að ábending til stjórnarinnar um að vísa erindinu frá,“ segir Þóra sem kveður stjórn Félags fréttamanna hafa í erindi sinu undirstrikað að stjórn RÚV hefði ekkert með það að gera að ákveða hvaða fréttir Helgi Seljan eða aðrir á fréttastofu RÚV skrifi.
Eins og fram kom í frétt Fréttablaðsins fyrr í kvöld vill Jóhanna Olga Hreiðarsdóttir, formaður stjórnar RÚV, ekki skýra frá afgreiðslunni á erindi Samherja fyrr en hún hafi verið kynnt lögmanni útgerðarfyrirtækisins á morgun.
Þóra segist spyrja sig hvers vegna stjórn RÚV ætti yfirhöfuð að fjalla um kröfur Samherja. „Stjórnin hefur ekkert umboð til þess, það er ekki hluti af hennar starfi. Þannig að ég ímynda mér og geri ekki ráð fyrir öðru en að þessu verði vísað frá og að það verði það sem verði sent til lögmanns Samherja. Stjórnin hefur ekkert með þetta erindi að gera,“ segir ritstjóri Kveiks.