Þóra Arnórs­dóttir, rit­stjóri Kveiks, segir að stjórn Fé­lags frétta­manna hafi sent erindi inn á fund stjórnar RÚV þar sem fjallað var um þá kröfu Sam­herja að frétta­maðurinn Helgi Seljan yrði á­minntur og að hann myndi ekki fjalla frekar um mál­efni fyrir­tækisins. Var krafan sett fram í kjöl­far niður­stöðu siða­nefndar RÚV um að Helgi hefði gerst brot­legur við siða­reglur stofnunarinnar.

„Frétta­stofan verður að hafa rit­stjórnar­legt sjálf­stæði og ég veit að í yfir­lýsingunni fólst að á­bending til stjórnarinnar um að vísa erindinu frá,“ segir Þóra sem kveður stjórn Fé­lags frétta­manna hafa í erindi sinu undir­strikað að stjórn RÚV hefði ekkert með það að gera að á­kveða hvaða fréttir Helgi Seljan eða aðrir á frétta­stofu RÚV skrifi.

Eins og fram kom í frétt Frétta­blaðsins fyrr í kvöld vill Jóhanna Olga Hreiðars­dóttir, for­maður stjórnar RÚV, ekki skýra frá af­greiðslunni á erindi Sam­herja fyrr en hún hafi verið kynnt lög­manni út­gerðar­fyrir­tækisins á morgun.

Þóra segist spyrja sig hvers vegna stjórn RÚV ætti yfir­höfuð að fjalla um kröfur Sam­herja. „Stjórnin hefur ekkert um­boð til þess, það er ekki hluti af hennar starfi. Þannig að ég í­mynda mér og geri ekki ráð fyrir öðru en að þessu verði vísað frá og að það verði það sem verði sent til lög­manns Sam­herja. Stjórnin hefur ekkert með þetta erindi að gera,“ segir rit­stjóri Kveiks.