Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, segir sögu Þóris Sæmundssonar leikara ekki hafa verið aðalatriðið í Kveiksþættinum 2. nóvember, heldur hluta fyrir heild.

„Það er von okkar að þátturinn verði til þess að fleiri vilji taka þátt í þessari umræðu en hann er að sjálfsögðu ekki hafinn yfir gagnrýni frekar en nokkuð annað sem við höfum gert.“ Þetta segir Þóra í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Netverjar hafa gagnrýnt viðtalið við Þóri, þar sem hann ræddi um lífið eftir að honum var sagt upp störfum hjá Þjóðleikhúsinu fyrir að senda ólögraða stúlkum typpamyndir. Ekki eru allir á sama máli að viðtalið hafi átt rétt á sér og hafa nokkrir þjóðþekktir einstaklingar og netverjar gagnrýnt Kveik fyrir að setja viðtalið fram á þann hátt sem þar var gert.

Hulda Hrund Sigmundsdóttir, meðlimur í aðgerðarsinnahópnum Öfgar, sagði til að mynda í Morgunútvarpi Rásar 2 að henni hafi þótt viðtalið einhliða frásögn.

„Þegar ég horfi á Kveik þá býst ég við ákveðinni rannsóknarblaðamennsku en þarna var ég bara að horfa á drottningarviðtal við mann sem var ekki tilbúinn að axla ábyrgð á öllum sínum gjörðum, sagði bara part af því sem hann var tilbúinn að axla og Kveikur bara einhvern veginn vann út frá því,“ sagði Hulda.

Óhætt er að segja að Íslendingar skiptist í fylkingar eftir að viðtalið og má sjá tvær mismunandi umræður í gangi, annars vegar á Twitter þar sem RÚV er fordæmt fyrir að birta „drottningarviðtal“ og hins vegar á Facebook þar sem RÚV og Þóri er hampað fyrir að setja af stað þessa umræðu.

„Því menn hverfa ekki, þeir eru ennþá meðal okkar, borgarar í landinu. Það er okkar hlutverk að spyrja erfiðra spurninga og það getur stundum verið umdeilt.“

Öfgar hafa gagnrýnt viðtal Kveiks við Þóri.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Mikið uppgjör átt sér stað eftir #Metoo

Aðspurð hvernig hún telji viðtalið tala inn í samtímann og umræðuna eftir #Metoo segir Þóra:

„Metoo-hreyfingin hefur breytt heiminum til hins betra. Yngri kynslóð kvenna er komin með nóg og hefur loksins opnað umræðuna um margt sem eldri kynslóðir létu því miður yfir sig ganga. Það er verið að setja ný viðmið og það er mjög mikilvægt. Sú umræða þarf að halda áfram og sem flest að taka þátt í henni,“ segir Þóra og heldur áfram.

„Maður sem er rekinn tvisvar frá Þjóðleikhúsinu þarf auðvitað að taka ábyrgð á sinni hegðun. Í okkar huga er hans persónulega saga ekki aðalatriði, heldur er hann hluti fyrir heild. Það hefur mikið uppgjör átt sér stað undanfarið og menn látnir horfast í augu við gjörðir sínar og hegðun.“

Kveikur mun fjalla um baráttu þolenda við réttarkerfið.

Þóra segir mikilvægt að spurja hvernig það uppgjör eigi að fara fram og því þurfi fjölmiðlar að spyrja erfiðra spurninga. Þátturinn sé að sjálfsögðu ekki hafinn yfir gagnrýni.

„Því menn hverfa ekki, þeir eru ennþá meðal okkar, borgarar í landinu. Það er okkar hlutverk að spyrja erfiðra spurninga og það getur stundum verið umdeilt. Þessi umræða er erfið og sérstaklega sársaukafull fyrir þolendur. Það er von okkar að þátturinn verði til þess að fleiri vilji taka þátt í þessari umræðu en hann er að sjálfsögðu ekki hafinn yfir gagnrýni frekar en nokkuð annað sem við höfum gert.“

Segir Þóra að Kveikur hafi og muni halda áfram að fjalla um ýmsa þætti í samfélaginu eftir #Metoo. Í þætti Kveiks þann 19. október var fjallað um stafrænt kynferðisofbeldi og meðal annars rætt við grunnskólastúlkur sem hafa orðið fyrir mikilli áreitni. „Kveikur hyggst halda áfram að fjalla um þessi mál, til að mynda baráttu þolenda við réttarkerfið.“

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar færslur sem sýna vel þessa „pólariseringu“ í umræðunni.