Stjórn Rit­höfunda­sam­bands Ís­lands (RSÍ) segist van­treysta sænsku móður­fé­lagi Stor­ytel, sem eignaðist ný­lega 70 prósenta hlut í bóka­út­gáfunni For­laginu. Stjórnin segir reynslu höfunda af Stor­ytel á Ís­landi ekki góða og að sömu sögu megi heyra frá rit­höfundum frá hinum Norður­löndunum.

Í á­lyktun stjórnarinnar sem gerð var á fundi fé­lagsins í dag segist hún óttast að til­gangur eig­enda Stor­ytel á Ís­landi sé að komast nær höfundarverki ís­lenskra höfunda og eyða allri sam­keppni á hljóð­bóka­markaði. „Margir fé­lags­menn hafa haft sam­band við stjórn og skrif­stofu RSÍ og viðrað á­hyggjur sínar,“ segir í á­lyktuninni.

„Höfundar og út­gef­endur ytra hafa borið því vitni að frelsi þeirra og menningar­leg á­hersla hafi beðið hnekki með eignar­haldi Stor­ytel AB. Slíkt vekur ugg í brjósti höfunda hér á landi, sporin ytra hræða, en reynslan ein mun leiða í ljós hvort sama öfug­þróun verði hér­lendis,“ segir þá í á­lyktun stjórnarinnar.

Fréttablaðið/Anton Brink

Skapar valdaójafnvægi á bókamarkaði

Þá er tekið fram að sam­kvæmt kjara­könnun, meðal fé­lags­manna sam­bandsins sem eiga verk hjá Stor­ytel á Ís­landi, séu greiðslur til höfunda afar lágar og tekju­módel fyrir­tækisins ó­gegn­sætt. Stjórnin lýsir því miklum á­hyggjum sínum af kaupum Stor­ytel á hlutnum í For­laginu.

Stjórn RSÍ segist fagna nýrri tækni og auknum tæki­færum fyrir les­endur til að njóta bók­mennta­verka en að hún hafi hins vegar á­hyggjur af enn meira valda­ó­jafn­vægi á bóka­markaði ef kaupin ganga í gegn. Þannig muni stærsta bóka­út­gáfa landsins og eina streymis­veita hljóð­bóka vera í eigu sama aðila.

„Sam­runi stórra aðila á markaði leiðir iðu­lega til skerðingar á virkri sam­keppni sem kemur neyt­endum og öðrum á markaði illa. Þegar um er að ræða fá­keppni á sviði menningar verður að stíga sér­stak­lega gæti­lega til jarðar,“ segir í á­lyktun RSÍ.

„Aldrei má vega að list­rænu frelsi þannig að litið sé á bók­menntir sem fram­leiðslu­vöru sem þarf að skila hagnaði en ekki list­ræna tjáningu sem hefur gildi í sjálfu sér.“