Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins og bæjarstjóri í Fjarðabyggð, segir erfitt að sjá Sjálfstæðisflokkinn fyrir sér í næstu ríkisstjórn. Þá segir hann svo virðast að „forystufólki hans gangi illa að upplifa sig sem hluta af þjóðinni og lifa eftir sömu reglum og ætlast er til af okkur öllum.“

Þar vísar Jón til frétta og umræðu um sóttvarnahliðarspor Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, sem hefur gengist við því að hafa verið viðstaddur fjölmennan viðburð á Þorláksmessu, þvert á sóttvarnareglur.

Jón er harðorður í garð samstarfsflokks Framsóknar í ríkisstjórn á Facebook-síðu sinni og segir að andstaða einstakra þingmanna í flokknum við sóttvarnaraðgerðir hafi einkennst af „öfgahyggju og ábyrgðarleysi.“ Þá hafi ráðherrar þurft að segja af sér.

Hann bætir við að hann hafi áhyggjur af flokknum og „þeim brestum sem eru orðnir augljósir í honum og veikja hann verulega til forystu í íslensku þjóðfélagi.“

Sigurður Ingi ekki farið fram á afsögn Bjarna

„Nú virðist sem þessi ríkisstjórn verði sú fyrsta sem er með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs til að sitja heilt kjörtímabil frá árinu 2007 og það er ekki framgöngu ráðherra og þingmanna þess flokks að þakka. Þingflokkurinn er ósamstæður og ósamtaka og hefur hluti hans verið við hlið Miðflokksins í stjórnarandstöðu í einstaka málum ríkisstjórnarinnar,“ skrifar ritarinn sem virðist vera lítt sáttur við viðbrögð Sjálfstæðismanna við afdrifaríkri heimsókn fjármála- og efnahagsráðherra í Ásmundarsal.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar á Alþingi hafa krafist afsagnar Bjarna vegna sóttvarnabrotsins en formenn Framsóknar og Vinstri grænna hafa ekki farið fram á slíkt og hyggjast halda stjórnarsamstarfinu áfram.

Ingi­björg Þórðar­dóttir, ritari Vinstri grænna, sem starfar einnig með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn greindi frá því fyrr í dag að hún teldi að Bjarni ætti að segja af sér í kjölfar málsins.

Í ljósi frétta og umræðu í samfélaginu síðustu daga þá hef ég orðið áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum og þeim brestum sem...

Posted by Jón Björn Hákonarson on Sunday, December 27, 2020