Kristjón Kormákur Guðjónsson gengur til liðs við Hringbraut og hefur því sagt upp störfum sem aðalritstjóri hjá DV. Þetta staðfestir Kristjón í samtali við Fréttablaðið. Hann segir starfið hafa verið erfitt þar sem hann vann allan sólarhringinn. Hann segist hlakka til að takast á við þessa áskorun og að spennandi tímar séu framundan.

„Ég ákvað að fara frá DV því mér fannst tími til að breyta til,“ segir Kristjón í samtali við Fréttablaðið. Kristjón verður ritstjóri Hringbrautar.is og mun stýra vefmiðlinum en Sigmundur Ernir verður sjónvarpsstjóri.

„Þetta er net og sjónvarp. Mig hefur alltaf dreymt um að vera sjónvarpsstjarna,“ segir Kristjón og slær á létta strengi. Hann segist fyrst og fremst ætla að einbeita sér að vefnum og láta sjónvarpið og netið vinna saman öðruvísi en áður hefur verið gert.

„Við gerum Hringbraut að einum stærsta miðli landsins. Ef ég kann eitthvað þá er það að sjá um netmiðla og þarna fæ ég tækifæri til að prófa sjónvarpið.“

Kristjón hóf störf hjá Vefpressunni árið 2012. Tveimur árum síðar var hann ráðinn ritstjóri Pressunar, sem rak þá vefina DV.is, Pressan.is, Eyjan.is og Bleikt.is.