Skimanir við ristil og endaþarmskrabbamein munu hefjast innan tíðar en 70 milljónir eru á fjárlögum þessa árs til að undirbúa þær og til að kaupa nauðsynleg tæki og fleira.

Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í umræðum á Alþingi fyrir skemmstu.

Langt er síðan Landlæknir birti tilkynningu á vef sínum, eða sumarið 2017, um að slík skimun væri á næsta leiti. „Nú hillir undir að unnt verði að hefja skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi í ársbyrjun 2018 enda hefur Krabbameinsfélagið lagt fram ítarlega aðgerðaráætlun um hana. Ef aðstæður leyfa má gera ráð fyrir að prófun á framkvæmd skimunarinnar hefjist síðar á þessu ári,“ stóð þar.

Fréttablaðið/Vilhelm

Árlega látast að meðaltali rúmlega 50 manns hér á landi vegna ristilkrabbameins en árlega greinast að meðaltali um 140 einstaklingar. Ristilkrabbamein er önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameins á Íslandi líkt og á Vesturlöndum.

Samkvæmt tölum frá Krabbameinsskránni fyrir árabilið 2010-2014 greindust 7 prósent karla og kvenna undir fimmtugu, 16 prósent á aldrinum 50-59 ára, 24 prósent á aldrinum 60-69 ára, 14 prósent á aldrinum 70-74 ára og 39 prósent eldri en 75 ára.

Ráðlagt er að hefja skimun við fimmtíu ára aldur, samkvæmt upplýsingum á vef Krabbameinsfélagsins.

Reykningar er einn áhættuþáttur fyrir ristilkrabbameini
Mynd/epa

Orsök ristilkrabbameins er oftast óþekkt en ofþyngd, kyrrseta, reykingar, neysla á rauðu kjöti og áfengi eru helstu áhættuþættir. Annað sem eykur áhættu enn frekar er fjölskyldusaga um ristilkrabbamein, langvarandi bólgusjúkdómar í ristli og erfanleg heilkenni sem bera með sér miklar líkur á ristilkrabbameini, jafnvel á barnsaldri.