Á fyrstu þrettán dögum stríðsins í Úkraínu hafa rúmlega tvær milljónir óbreyttra borgara flúið heimili sín í landinu, að mestu til næstu nágrannaríkja. Meira en helmingur flóttafólksins er kominn til Póllands en aðrir til Slóvak­íu, Ung­verja­lands og Mold­óvu, auk þess sem nokkur fjöldi hefur farið til Rúss­lands og örfáir til Hvíta-Rúss­lands. Einhverjir hafa komist lengra til annarra Evrópuríkja.

Fyrir viku samþykktu aðildarríki Evrópusambandsins að virkja tímabundið verndarákvæði fyrir flóttafólk frá Úkraínu. Verndarákvæðið tryggir flóttafólki frá Úkraínu rétt til að til að búa og vinna í aðildarríkjum Schengen og leyfi þar að lútandi verður unnt að fá endurnýjuð á sex mánaða fresti.

Án þessa úrræðis hefði úkraínskum borgurum aðeins verið heimilt að dvelja innan Schengen í þrjá mánuði og þeir hefðu ekki rétt til að vinna.

Yfir milljón hefur komið yfir landamærin frá Úkraínu til Póllands frá því stríðið hófst fyrir 13 dögum. Hér ylja konur og börn sér við opinn eld meðan beðið er eftir lest sem á að flytja þau frá Medíjka til Kraká í Póllandi.
Fréttablaðið/Getty

Hjá Bretum, sem gengnir eru úr Evrópusambandinu, hafa deilur sprottið upp um hvernig eigi að haga móttöku flóttafólks. Þar hefur ekki verið tekið upp sambærilegt verklag og hjá ESB og hafa úkraínskir borgarar sem vinna og starfa í Bretlandi ekki fengið að bjóða fjölskyldum sínum til sín. Sendiherra Úkraínu í Bretlandi hefur biðlað til stjórnvalda um að einfalda ferla sína til að því fólki sem hugnast að komast til Bretlands verði það mögulegt.

Fólk flýr á eigin vegum

Íslenska ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið að fylgja fordæmi Evrópusambandsins og munu sams konar reglur gilda fyrir fólkið sem hingað kemur frá Úkraínu og til annarra ESB-ríkja.

„Það er erfitt að segja hve mörgum við munum taka á móti á næstu dögum þar sem fólkið er allt að ferðast á eigin vegum. Þetta er fólk á flótta sem er að leita sér að skjóli og það eru svo sem engar tölur um það nákvæmlega hve margir munu koma til með að koma hingað,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson sem leiðir að­gerða­hóp stjórn­valda um mót­töku flótta­fólks frá Úkraínu.

„Við erum að gera ráð fyrir að þetta geti orðið á bilinu þúsund til fimmtán hundruð sem munu koma til okkar, en það gætu orðið mun færri en einnig mun fleiri,“ segir hann. Að mestu leyti verði þetta konur og börn og hugsanlega gamalt fólk með.

Gylfi Þór Þorsteinsson fer fyrir aðgerðahópi stjórnvalda um mótttöku flóttafólks frá Úkraínu.

Aðspurður segir Gylfi að á þessari stundu sé ekki verið að undirbúa móttöku tiltekinna hópa en það gæti þó orðið þannig líka á síðari stigum, til dæmis hópa frá þeim ríkjum þangað sem mesti flóttamannastraumurinn hefur legið, eins og til Póllands, sem tekið hefur á móti meira en milljón manns á síðustu 13 dögum.Húsnæði helsta áskorunin

Hann segir helstu áskorunina vera að útvega húsnæði fyrir fólkið til skemmri og lengri tíma.

„Í því sambandi opnuðum við vefsíðu sem hægt er að finna inni á vefnum island.is þar sem fólk getur skráð eignir til láns eða leigu. Einnig sendum við bréf á öll sveitarfélög landsins því það eru jú þau sem þurfa að taka á móti fólkinu og þjónusta það. Þannig að við erum að efna til samstarfs við bæði sveitarfélög, stofnanir og samtök sem þurfa að vera með okkur í þessu,“ segir Gylfi Þór.

Hættustig á landamærum

Fyrr í vikunni færði ríkislögreglustjóri viðbúnaðarstig við landamærin á hættustig vegna mikillar fyrirséðrar fjölgunar flóttafólks sem vænta má að komi til landsins. Þann 8. mars höfðu þegar yfir 100 manns með tengsl við Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og gera má ráð fyrir að sú tala hafi nú þegar hækkað eitthvað.

Í tilkynningunni kemur fram að með því að færa viðbúnað upp á hættustig séu virkjuð tæki, tól og aðstoð til þess að taka sem best á móti stærri hópum af fólki í neyð. Viðbragðsáætlunin geri til dæmis ráð fyrir þeim möguleika að opna fjöldahjálparstöð.

Filippo Grandi, umboðsmaður í málefnum flóttafólks hjá Sameinuðu þjóðunum.
Fréttablaðið/Getty

Hrærður yfir skjótum viðbrögðum Evrópu

„Viðbrögð Evrópu hafa verið með ólíkindum góð,“ segir í yfirlýsingu Filippo Grandi, umboðsmanns flóttafólks hjá Sameinuðu þjóðunum, sem hefur undanfarna fimm daga verið á vettvangi, hitt flóttafólk, hjálparstarfslið og sjálfboðaliða á svæðum umhverfis Úkraínu sem flóttafólkið hefur streymt til.

Grandi segist hafa rætt við fjölda flóttafólks, mest konur og börn auk gamalmenna og fólks með fötlun. „Þau hafa orðið fyrir miklu áfalli bæði vegna ofbeldisins í heimalandinu og erfiðs flótta í skjól. Fjölskyldur hafa verið klofnar í sundur og fari fram sem horfir verða það örlög margra, nema stríðið verði stöðvað.“

Grandi vísar einnig til skjótra viðbragða Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, bæði með veittri sérfræðiaðstoð og fjárhagsaðstoð upp á tugi milljóna dollara til þeirra ríkja sem mest mæðir á. Þá skorar hann á alþjóðasamfélagið að styðja vel við móttökuríkin sem standa Úkraínu næst.