Lilja Guðmundsdóttir, formaður Samtaka um endómetríósu, fagnar nýjum samningi Sjúkratrygginga Íslands við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna endómetríósu.
Heilbrigðisráðherra tilkynnti um samninginn í dag og sagði í tilkynningu að samkvæmt samningnum verði þau sem eru í brýnustu þörf í forgangi og að það sé alger forgangsmál innan ráðuneytisins að stytta biðlista í heilbrigðiskerfinu.
„Við vonum að þessi samningur sé kominn til að vera og erum gríðarlega ánægð með að ráðherra hafi tekið mark á því sem við höfum verið að benda á,“ segir Lilja en samkvæmt samningi mun fólk með endómetríósu geta farið í þær aðgerðir sem þau þurfa á að halda bæði hjá Klíníkinni og hjá Landspítalanum.
Vilja að samningur sé afturvirkur
Hún segir baráttu samtakanna þó alls ekki lokið því nú þegar hafi 140 konur farið í aðgerðina sem um ræðir og greitt fyrir hana sjálfar. Allt frá 700 þúsund krónum upp í 1,2 milljónum króna.
„Við munum halda áfram að berjast fyrir þær og beita þrýstingi á að þessar niðurgreiðslur verði að einhverju leyti líka afturvirkar. En burtséð frá því er þetta auðvitað risastórt skref til batnaðar sem við erum ánægð með.“
Lilja segir að hún viti ekki nákvæmlega hversu margir eru á biðlista en að fólk hafi verið að bíða eftir viðtali á Landspítala í meira en ár.
„Þjónustan á Landspítalanum hefur ekki náð að anna þeim fjölda sem er með þennan sjúkdóm og það er svo frábært að nú séu tveir staðir á Íslandi þar sem verið er að búa til þjónustu fyrir fólk með endómetríósu og að fólk hafi eitthvað val,“ segir Lilja og að fólk geti leitað annað ef það er ekki ánægt með þjónustuna á öðrum staðnum.
Veldur líffæraskemmdum
Aðgerðin sem um ræðir er kviðarholsspeglun og er mjög misjafnt eftir því hversu langt sjúkdómurinn er gengin hversu langan tíma aðgerðin tekur en það getur verið allt frá hálftíma upp í sex klukkutíma.
„Það er misjafnt hvað þetta eru flóknar aðgerðir og Jón Ívar Einarsson er með mikla sérþekkingu á þessu sviði. Hann starfar einnig í Harvard við að sinna þessum aðgerðum og það er frábært að fá hann til landsins.“
Í tilkynningu ráðuneytisins í dag kom fram að nú sé unnið að því að innleiða tillögur frá starfshópi sem var skipaður um málið en tillögur hópsins snúa aðallega að aukinni fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks og einstaklinga, skipulagi þjónustunnar og jöfnu aðgengi að sérfræðiþjónustu óháð efnahag.
Auk þess lagði hópurinn til styrkingu endómetríósuteymis Landspítala sem ráðherra fylgdi eftir með 30 milljóna króna varanlegri aukafjárveitingu til styrkingar teymisins.
„Það eru fleiri þættir sem þarf að bæta eins og fyrsta stig heilbrigðisþjónustu, að það sé greiðari leið og að heimilislæknar vísi svona málum áfram á endó-teymi Landspítalans og nú Klíníkina. Greiningartíminn hefur verið sjö til tíu ár og það er líka út af þessum löngu biðlistum. Svo þarf líka að auka vitundina um sjúkdóminn í samfélaginu því það sem gerist ef þú ert með þennan sjúkdóm og hann er ekki meðhöndlaður er að hann veldur líffæraskemmdum smám saman og það er algengt að það þurfi að taka eggjastokka, eggjaleiðara og stundum legið. Stundum leggst þetta á þind eða ristil og eyðileggur líffærin smám saman. Til að varðveita frjósemi og minnka verki er mjög mikilvægt að meðhöndla sjúkdóminn.“