Lilja Guð­munds­dóttir, for­maður Sam­taka um endó­metríósu, fagnar nýjum samningi Sjúkra­trygginga Ís­lands við Klíníkina um kaup á að­gerðum vegna endó­metríósu.

Heil­brigðis­ráð­herra til­kynnti um samninginn í dag og sagði í til­kynningu að sam­kvæmt samningnum verði þau sem eru í brýnustu þörf í for­gangi og að það sé al­ger for­gangs­mál innan ráðu­neytisins að stytta bið­lista í heilbrigðiskerfinu.

„Við vonum að þessi samningur sé kominn til að vera og erum gríðar­lega á­nægð með að ráð­herra hafi tekið mark á því sem við höfum verið að benda á,“ segir Lilja en sam­kvæmt samningi mun fólk með endó­metríósu geta farið í þær að­gerðir sem þau þurfa á að halda bæði hjá Klíníkinni og hjá Land­spítalanum.

Vilja að samningur sé afturvirkur

Hún segir bar­áttu sam­takanna þó alls ekki lokið því nú þegar hafi 140 konur farið í að­gerðina sem um ræðir og greitt fyrir hana sjálfar. Allt frá 700 þúsund krónum upp í 1,2 milljónum króna.

„Við munum halda á­fram að berjast fyrir þær og beita þrýstingi á að þessar niður­greiðslur verði að ein­hverju leyti líka aftur­virkar. En burt­séð frá því er þetta auð­vitað risa­stórt skref til batnaðar sem við erum á­nægð með.“

Lilja segir að hún viti ekki ná­kvæm­lega hversu margir eru á bið­lista en að fólk hafi verið að bíða eftir við­tali á Land­spítala í meira en ár.

„Þjónustan á Land­spítalanum hefur ekki náð að anna þeim fjölda sem er með þennan sjúk­dóm og það er svo frá­bært að nú séu tveir staðir á Ís­landi þar sem verið er að búa til þjónustu fyrir fólk með endó­metríósu og að fólk hafi eitt­hvað val,“ segir Lilja og að fólk geti leitað annað ef það er ekki á­nægt með þjónustuna á öðrum staðnum.

Veldur líffæraskemmdum

Að­gerðin sem um ræðir er kviðar­hols­speglun og er mjög mis­jafnt eftir því hversu langt sjúk­dómurinn er gengin hversu langan tíma að­gerðin tekur en það getur verið allt frá hálf­tíma upp í sex klukku­tíma.

„Það er mis­jafnt hvað þetta eru flóknar að­gerðir og Jón Ívar Einars­son er með mikla sér­þekkingu á þessu sviði. Hann starfar einnig í Harvard við að sinna þessum að­gerðum og það er frá­bært að fá hann til landsins.“

Í til­kynningu ráðu­neytisins í dag kom fram að nú sé unnið að því að inn­leiða til­lögur frá starfs­hópi sem var skipaður um málið en til­lögur hópsins snúa aðal­lega að aukinni fræðslu til heil­brigðis­starfs­fólks og ein­stak­linga, skipu­lagi þjónustunnar og jöfnu að­gengi að sér­fræði­þjónustu óháð efna­hag.

Auk þess lagði hópurinn til styrkingu endó­metríósu­teymis Land­spítala sem ráð­herra fylgdi eftir með 30 milljóna króna varan­legri auka­fjár­veitingu til styrkingar teymisins.

„Það eru fleiri þættir sem þarf að bæta eins og fyrsta stig heil­brigðis­þjónustu, að það sé greiðari leið og að heimilis­læknar vísi svona málum á­fram á endó-teymi Land­spítalans og nú Klíníkina. Greiningar­tíminn hefur verið sjö til tíu ár og það er líka út af þessum löngu bið­listum. Svo þarf líka að auka vitundina um sjúk­dóminn í sam­fé­laginu því það sem gerist ef þú ert með þennan sjúk­dóm og hann er ekki með­höndlaður er að hann veldur líf­færa­skemmdum smám saman og það er al­gengt að það þurfi að taka eggja­stokka, eggja­leiðara og stundum legið. Stundum leggst þetta á þind eða ristil og eyði­leggur líf­færin smám saman. Til að varð­veita frjó­semi og minnka verki er mjög mikil­vægt að með­höndla sjúk­dóminn.“