Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, klórar sér í hausnum yfir nýja fjárlagafrumvarpinu og telur það ekki svara mikilvægum spurningum. Hann segir að heilbrigðismál og húsnæðismál séu hundsuð í frumvarpinu.
„Þetta er risastórt ógagnsætt plagg sem segir manni voðalega lítið um rosalega margt. Það er kannski helstu tvö atriðin sem ég klóra mér í hausnum yfir, það eru sjúkrahúsmálin og húsnæðismálin,“ segir Björn.
„Það er fjögurra milljarða aðhald á sjúkraþjónustu, sem ég skil ekki hvernig þau ætla eiginlega að geta látið gerast. Þau monta sig yfir því að það sé verið að auka framlög en það er nýbygging í gangi, það er meiri þörf. Það þarf fjármagn í heilbrigðiskerfið þar sem við erum að fjölga og þjóðin er að eldast. Heilbrigðiskerfið verður þá bara dýrara,“ segir Björn, sem undrar sig á niðurskurðinum.
„En svo á að skera niður um 4,1 milljarð, eftir alla þá útreikninga. Það er ekki einu sinni reynt að útskýra hvernig það á að vera gerlegt, miðað við stöðuna sem við erum búnir að heyra um í þessum málaflokki undanfarin ár. Ég fatta það ekki,“ segir Björn.
Ríkisstjórnarflokkarnir ekki sammála um húsnæðismálin
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra tilkynnti fyrr í sumar að það stæði til að byggja um þrjátíu þúsund nýjar íbúðir. Björn segir að frumvarpið gefi ekkert til kynna hvernig ríkisstjórnin ætli að fara að því.
„Við vitum að það séu lög um það hversu stórt hlutfall ríkið tekur þátt í slíkri aðgerð, þannig það er auðvelt að finna þá upphæð. En það er ekkert í þessu fjárlagafrumvarpi og fjármálaráðherra virðist vera segja; „Æj við settum einhverja upphæð í almenna varasjóðinn, við vitum ekkert hvað mikið, það er bara eitthvað. Þið verðið bara að redda því hversu mikið það á að vera“,“ segir Björn.
„Þetta þýðir það bókstaflega að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki búnir að semja um það sín á milli hversu há upphæð það á að vera, það er ekkert flóknara en það. Sigurður Ingi er búinn að segja hvað hann vill gera og annað hvort eru Vinstri grænir eða Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega að segja nei. Það á þá eftir að komast að niðurstöðu hvað á að gera annað heldur en Sigurður Ingi sagði fyrr í sumar. Hann var mjög skýr í upphafi sumars að það þurfi að byggja miðað við greiningar um hvað vantar. Þetta er ekkert rosalega flókið,“ segir Björn.
Björn segir að stærsta málið í verðbólgunni og í íslenskum efnahagsaðstæðum séu húsnæðismálin. Hann segir að það þurfi að fjölga íbúðum til þess að koma stöðugleika á húsnæðismarkaðinn, það dugi ekki að hundsa vandamálið.
„Það að ríkisstjórnin sé ekki að skila einhverri upphæð í fjárlagafrumvarpi varðandi þetta er ekki ásættanlegt, svo ég taki vægt til orða,“ segir Björn.