Björn Leví Gunnars­son, þing­maður Pírata, klórar sér í hausnum yfir nýja fjár­laga­frum­varpinu og telur það ekki svara mikil­vægum spurningum. Hann segir að heil­brigðis­mál og hús­næðis­mál séu hundsuð í frum­varpinu.

„Þetta er risa­stórt ó­gagn­sætt plagg sem segir manni voða­lega lítið um rosa­lega margt. Það er kannski helstu tvö at­riðin sem ég klóra mér í hausnum yfir, það eru sjúkra­hús­málin og hús­næðis­málin,“ segir Björn.

„Það er fjögurra milljarða að­hald á sjúkra­þjónustu, sem ég skil ekki hvernig þau ætla eigin­lega að geta látið gerast. Þau monta sig yfir því að það sé verið að auka fram­lög en það er ný­bygging í gangi, það er meiri þörf. Það þarf fjár­magn í heil­brigðis­kerfið þar sem við erum að fjölga og þjóðin er að eldast. Heil­brigðis­kerfið verður þá bara dýrara,“ segir Björn, sem undrar sig á niður­skurðinum.

„En svo á að skera niður um 4,1 milljarð, eftir alla þá út­reikninga. Það er ekki einu sinni reynt að út­skýra hvernig það á að vera ger­legt, miðað við stöðuna sem við erum búnir að heyra um í þessum mála­flokki undan­farin ár. Ég fatta það ekki,“ segir Björn.

Ríkis­stjórnar­flokkarnir ekki sam­mála um hús­næðis­málin

Sigurður Ingi Jóhanns­son, inn­viða­ráð­herra til­kynnti fyrr í sumar að það stæði til að byggja um þrjá­tíu þúsund nýjar í­búðir. Björn segir að frum­varpið gefi ekkert til kynna hvernig ríkis­stjórnin ætli að fara að því.

„Við vitum að það séu lög um það hversu stórt hlut­fall ríkið tekur þátt í slíkri að­gerð, þannig það er auð­velt að finna þá upp­hæð. En það er ekkert í þessu fjár­laga­frum­varpi og fjár­mála­ráð­herra virðist vera segja; „Æj við settum ein­hverja upp­hæð í al­menna vara­sjóðinn, við vitum ekkert hvað mikið, það er bara eitt­hvað. Þið verðið bara að redda því hversu mikið það á að vera“,“ segir Björn.

„Þetta þýðir það bók­staf­lega að ríkis­stjórnar­flokkarnir eru ekki búnir að semja um það sín á milli hversu há upp­hæð það á að vera, það er ekkert flóknara en það. Sigurður Ingi er búinn að segja hvað hann vill gera og annað hvort eru Vinstri grænir eða Sjálf­stæðis­flokkurinn ein­fald­lega að segja nei. Það á þá eftir að komast að niður­stöðu hvað á að gera annað heldur en Sigurður Ingi sagði fyrr í sumar. Hann var mjög skýr í upp­hafi sumars að það þurfi að byggja miðað við greiningar um hvað vantar. Þetta er ekkert rosa­lega flókið,“ segir Björn.

Björn segir að stærsta málið í verð­bólgunni og í ís­lenskum efna­hags­að­stæðum séu hús­næðis­málin. Hann segir að það þurfi að fjölga í­búðum til þess að koma stöðug­leika á hús­næðis­markaðinn, það dugi ekki að hundsa vanda­málið.

„Það að ríkis­stjórnin sé ekki að skila ein­hverri upp­hæð í fjár­laga­frum­varpi varðandi þetta er ekki á­sættan­legt, svo ég taki vægt til orða,“ segir Björn.