Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sektar norska fjarskiptafélagið Telenor um 1,2 milljarða norskra króna, sem er andvirði um 16,6 milljarða íslenskra króna, vegna brota á samkeppnisreglum EES-samningsins.

Þetta er hæsta sekt af þessu tagi í sögu Noregs, fimmfalt meira en árleg framlög til eftirlitsstofnunarinnar. Árni Páll Árnason, sem situr í stjórn ESA, segir þetta sögulegt.

„Þetta var umfangsmikið og flókið mál en dómurinn er mjög afgerandi og skýr og öllum málsástæðum kæranda hafnað,“ segir Árni Páll í samtali við Fréttablaðið.

Norska fjarskiptafyrirtækið Telenor tapaði gegn ESA.
Fréttablaðið/Getty images

Hann segir þessa niðurstöðu vind í segl stofnunarinnar. „Við höldum áfram að standa vörð um öflugan samkeppnismarkað í EFTA löndum.“

Dómstóll EFTA hafnaði áfrýjun Noregs í málinu en Telenor fór fram á að dómstólinn ógildi ákvörðun ESA frá árinu 2020

Sektin sem norska fyrirtækið mun þurfa að greiða skiptist milli EFTA ríkja í hlutfalli við framlög til EFTA en Árni Páll segir að hlutur Íslands gæti numið um rúmum hálfum milljarð.

„Við erum í nánum samskiptum við samkeppniseftirlit aðildaþjóðanna og þessi framkvæmd var samvinnuverkefni. Það eru neytendur í aðildaþjóðum sem hagnast á þessu.“

Málið má rekja til rannsóknar ESA á Telenor frá árinu 2012 vegna gruns um að fyrirtækið hefði brotið gegn 54. grein EES-samningsins. Talið var að fyrirtækið hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með ólögmætum verðþrýstingi. Samkeppnisaðilar gátu ekki keppt við félagið með eðlilegum hætti.

Hér má lesa ákvörðun dómstóls EFTA í máli Telenor.