Nú stendur yfir undirbúningur við stóra alþjóðlega ráðstefnu sem halda á hér á landi. Ráðstefnan mun tengjast tölvuleikjum og rafíþróttum en Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður Rafíþróttasambands Íslands, kveðst ekki geta staðfest að svo stöddu hvort eða hvenær hún fari fram.

Áætlað er að fjöldi alþjóðlegra gesta sæki Ísland heim til að taka þátt í ráðstefnunni, sem gert er ráð fyrir að fari fram í tónleika- og ráðstefnuhúsinu Hörpu. Þar hefur starfsemi að mestu leyti legið niðri síðastliðið ár vegna kórónuveiru­faraldursins svo ætla má að viðburðurinn komi sér vel fyrir rekstur hússins.

Þá herma heimildir að búið sé að taka frá um sex þúsund gistinætur á hótelum hérlendis til að hýsa gesti ráðstefnunnar.

Pétur Þorsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, kveðst ekki vilja staðfesta slíkar fregnir. Gistinóttum á hótelum á Íslandi hefur fækkað gríðarlega frá því í kórónuveirufaraldrinum.

Gistinætur á hótelum á Íslandi drógust saman um 86 prósent í maí í fyrra miðað við maí ári fyrr, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar voru gistinætur á hótelum 44 þúsund talsins í maí í fyrra en árið 2019 voru þær 315 þúsund í sama mánuði. Greiddar gistinætur í júlí árið 2020 voru um 667 þúsund en á sama tíma ári fyrr voru þær um 1.557.000. Rúmlega 70 prósent gistinátta voru skráðar á Íslendinga og tæp þrjátíu prósent á erlenda gesti.

Starfsfólki í tölvuleikjaiðnaðinum hér á landi fjölgaði um 35 manns árið 2020 og aldrei fyrr hefur verið veitt hærri upphæð til þessarar atvinnugreinar frá Tækniþróunarsjóði en á síðasta ári, eða 190 milljónir króna.

Í samtali við Fréttablaðið í byrjun febrúar segir Vignir Örn Guðmundsson, fyrrum formaður Samtaka íslenskra leikjaframleiðenda, að í kórónaveirufaraldrinum hafi vel mátt greina viðhorfsbreytingar í garð tölvuleikja, vel hafi komið í ljós hversu stóran þátt tölvuleikir geti haft á félagsleg tengsl.

„Augljóslega hefur sú einangrun sem fólk upplifði í kjölfar faraldursins haft áhrif á þessa vitundarvakningu um gildi og virði tölvuleikja í samhengi við heilbrigði, einmanaleika og tengsl,“ sagði Vignir Örn.