Sex mál tengd aðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins voru afgreidd á Alþingi í gærkvöldi. Um var að ræða fimm frumvörp; þar á meðal um efnahagsaðgerðir, borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila og þingsályktun um tímabundið fjárfestingaátak hins opinbera.

Í nýjum fjáraukalögum við fjárlög yfirstandandi árs, sem samþykkt voru í gær, er kveðið á um gjaldheimild úr ríkissjóði fyrir 18 milljörðum vegna sérstaks fjárfestingaátaks en heimildin hækkaði um tæpa þrjá milljarða í meðförum þingsins. Þá er gert ráð fyrir rúmum þremur milljörðum í barnabótaauka og þriggja milljarða markaðsátaki fyrir ferðaþjónustuna.

Heimild ríkissjóðs til að taka lán í erlendum gjaldmiðli var einnig hækkuð um 95 milljarða.

350 milljónir til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu

Meðal þess sem bættist við fjáraukalög í meðförum þingsins eru 350 milljónir til sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu sem skiptist milli Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri, 250 milljónir til Heilsugæslunnar og 400 milljónir fara í fjármögnun veiruskimunarprófa og hlífðarbúnaðar.

Samþykkt var einnig að veita 400 milljónum í 20 þúsund króna eingreiðslu til örorku og endurhæfingarlífeyrisþega, 140 milljónir fara í geðheilbrigðismál og málefni heimilislausra og 40 milljónir í aðgerðir og vinnu gegn kvíða og einmanaleika.

Endurbygging á gangi við bráðavaktina í Fossvogi

Meðal verkefna sem bættust við fjárfestingaátak ríkisstjórnarinnar í meðförum þingsins eru endurbygging á gangi við bráðavaktina í Fossvogi sem hefur verið útbúinn fyrir COVID-19 sjúklinga, 100 milljónir til að endurbyggja hús vínbúðarinnar á Seyðisfirði, tæpar 400 milljónir til endurbygginga og viðhaldsverkefna heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, 126 milljónir til viðhalds á Þórshafnarflugvelli og 170 milljónir til viðhalds annarra flugvalla á landsbyggðinni. Umhverfisráðherra fær 50 milljónir til að veita í eflingu nýsköpunar í loftslagsmálum, 100 milljónum verður bætt í sjóð til úthlutunar á vettvangi verkefnisins Brothættar byggðir og sérstakt framlag til rannsóknasjóðs, innviðasjóðs og tækniþróunarsjóðs verður hækkað um 600 milljónir og verður 1,4 milljarðar. Framlag til menningar og lista var hækkað úr 750 milljónum í milljarð. Þá fara 100 milljónir til nýsköpunarsjóðs námsmanna, 200 milljónir til grænmetisframleiðslu og 100 milljónir til húsafriðunarsjóðs.

Sérstakar aðgerðir í efnahagsmálum

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um sérstakar aðgerðir í efnahagsmálum varð einnig að lögum í gær með heimild til ríkisábyrgða á brúarlánum til fyrirtækja, frestun og afnámi ýmissa opinberra gjalda, þar á meðal tímabundið afnám gistináttaskatts, frestun á greiðslu tryggingagjalds, breytingar á gjalddögum aðflutningsgjalda, endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna framkvæmda, heimild til úttektar séreignarsparnaðar og fleira.

Eftir að frumvarpið kom til meðferðar hjá Alþingi bættist við það sérstakt ákvæði um eftirlitsnefnd sem ráðherra mun skipa og er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd ákvæðis um brúarlán til fyrirtækja.

Boða endurskoðun almannavarnalaga

Frumvarp dómsmálaráðherra um borgaralega skyldu starfsmanna opinberra aðila var einnig afgreitt en frumvarpið felur í sér breytingu á lögum um almannavarnir sem kveður á um heimild til opinberra aðila að færa starfsmenn milli starfa, stofnana og jafnvel stjórnsýslustiga í þeim tilvikum þegar ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi. Frumvarpinu var breytt í meðförum allsherjar- og menntamálanefndar þannig að í stað varanlegrar breytingar á almannavarnalögum verður um svokallað sólarlagsákvæði að ræða sem fellur úr gildi 1. janúar 2021. Nefndin vék í nefndaráliti að ummælum dómsmálaráðherra um heildarendurskoðun almannavarnalaga og hvetur til þess að lögin verði tekin fyrir um leið og neyðarástandi verður aflétt.