Stærsta skipasmíðastöð Rússlands hefur afhent flota landsins stærsta kafbát heims. Að sögn Rússa er um að ræða rannsóknarfley en að sögn CNN telja aðrir að kafbáturinn verði notaður til njósna og mögulega undir kjarnorkuvopn.

Sevmash-skipasmíðastöðin afhenti risakafbátinn, sem ber nafnið Belgorod, í byrjun júlí í höfninni í Severodvinsk.

Belgorod, sem er 175 metrar að lengd og mun geta verið fjóra mánuði í kafi viðstöðulaust, er af sérfræðingum sagður vera endurbætt útgáfa af rússneska Oscar II kafbátnum. Rússar hafi lengt kafbátinn svo hann geti borið fyrstu kjarnorkutundurskeyti í heimi og njósnabúnað.

Segir í frétt CNN að gangi áform Rússa eftir gæti það leitt til nýrra kafla í kalda stríðinu undir yfirborði heimshafanna þar sem kafbátar Rússa og Bandaríkjanna hverfist hver um annan í spennuþrungnum eltingaleik.

Það sem aðskilur Belgorod frá öðrum kafbátum Rússa og allra annarra er verkefnið sem honum er sagt vera ætlað.

ASS-fréttastofan hefur sagt að Belgorod muni bera ný tundurskeyti með vetnissprengjum sem eigi að laumast með hafsbotninum fram hjá varnarkerfum andstæðinga. Rússneskir og bandarískir sérfræðingar segja að tundurskeytin geti borið margra megatonna kjarnaodda sem skapað geti geislavirkar flóðbylgjur sem geri heilu strandhéruðin óbyggileg í áratugi.

Belgorod er sagður munu geta borið átta Poseidon-tundurskeyti þótt sumir telji þau verða sex. Þau eru tveir metrar í þvermál og tuttugu metra löng og þar með stærstu tundurskeyti heims. Það er sagt vera um þrjátíufalt stærra en hefðbundin tundurskeyti í þungavigt.

„Þau eru hljóðlát, láta mjög vel að stjórn og hafa nær enga veikleika sem óvinurinn getur nýtt sér,“ er Vladímír Pútín, forseti Rússlands, sagður hafa sagt árið 2018.

Efasemdarmenn hafa bent á að um sé að ræða tækni sem sé í þróun og óvíst sé hvort Poseidon-tundurskeytin verði að veruleika.

Mynd/Graphic News