Neyðarástand vegna kórónuveirufaraldursins skýrir gríðarlega söluaukningu hjá heildsölufyrirtækinu Lyra, sem velti 4.250 milljónum króna í fyrra og skilaði 1.954 milljónum króna í rekstrarafgang.

Feðginin sem eiga Lyra ákváðu að skipta með sér allt að 750 milljónum sem arðgreiðslu vegna árangursins.

Lyra er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var á árinu 1991 og fæst við sölu á rannsókna- og efnagreiningatækjum svo og rekstrarvörum til efnagreininga. Framkvæmdastjóri þess og aðaleigandi er Höskuldur H. Höskuldsson.

Langstærsti viðskiptavinur Lyru er Landspítalinn með kaupum á veirugreiningatækjum og tilheyrandi efnum til prófana.

Að því er segir í upplýsingum sem fengust frá Landspítalanum í gær fóru innkaupin frá Lyru fram án útboðs. Undanþágur til þess fengust með beitingu neyðarréttar í ljósi ástandsins í heimsfaraldrinum.

Meðal annars hafi Landspítalinn keypt raðgreiningatæki en kostnaðurinn felist þó ekki síður í hvarfefnum til greininga á sýnum vegna Covid-19. Uppi hafi verið alheimsneyðarástand og slegist hafi verið um þessi efni á markaðinum.

Samkvæmt svörum Landspítalans þótti nauðsynlegt að fá tækin og efnin því greiningagetan hafi verið sprungin og Íslensk erfðagreining borið þungann af greiningum.

Árið 2016 velti Lyra 596 milljónum króna og hagnaðurinn þá var 8 milljónir króna eftir skatt.

Hagnaðurinn í fyrra var sem fyrr segir 1.954 milljónir, eða hátt í helmingur þess sem selt var fyrir. Að frádregnum tekjuskatti var hagnaðurinn 1.564 milljónir króna.

„Covid-heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér aukna spurn eftir vörum félagsins og veltuaukningu samanborið við fyrra ár“, er útskýrt í ársreikningi Lyru fyrir árið 2021.

Svipaða færslu er að finna í ársreikningi Lyru fyrir árið 2020. Þá seldi fyrirtækið vörur og þjónustu fyrir 1.042 milljónir króna og skilaði 317 milljónum í hagnað fyrir skatta. Arður var þá greiddur „í samræmi við það sem lög leyfa“, eins og segir í ársreikningi.

Starfsmenn Lyra í fyrra voru fjórtán og skiptu þeir með sér 127 milljóna króna launagreiðslum.

Eini eigandi Lyru undanfarin ár hefur verið Höskuldur H. Höskuldsson framkvæmdastjóri, en í fyrra eignuðust dætur hans tvær hvor sinn 16,7 prósenta hlutinn í Lyru á móti föður sínum, sem þá á 66,7 prósent hlutafjárins.

Höskuldur er erlendis og hvorki náðist tal af honum né aðstoðarframkvæmdastjóra fyrirtækisins í gær.