Til stendur að reisa risastóra styttu af mjólkurkú í Eyjafjarðarsveit í tengslum við markaðsátak í heilsársferðaþjónustu.

Greint er frá þessu í eyfirska fréttavefnum Vikudegi.

Hrefna Laufey Ingólfsdóttir, sem situr í stjórn Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar, segir að ákveðið hafi verið að búa til risastóra mjólkurkú þar sem mikil mjólkurframleiðsla er í sveitinni.

Eldsmiðurinn Beate Stormo mun hanna gripinn.
Mynd úr einkasafni

Mjólkurkýrin verður tákn fyrir sveitarfélagið sem allir þyrftu að koma að sjá að sögn Hrefnu. Ekki er enn búið að ákveða nákvæma staðsetningu en til stendur að reisa mjólkurkúna innarlega í firðinum.

Eldsmiðurinn Beate Stormo mun hanna gripinn og smíða kúna úr gömlum heyvinnuvélum og öðru endurnýtanlegu járni úr sveitinni. Verkið verður sennilega vígt á Handverkshátíðinni árið 2021.