Þrír einstaklingar hafa verið handteknir í tengslum við dauða 50 einstaklinga en lík fólksins fundust í tengivagni flutningabíls í Texas í fyrradag.

Þegar bíllinn fannst á fáförnum vegi suðvestur af borginni San Antonio voru 46 lík í bílnum og sextán einstaklingar voru enn á lífi. Tólf fullorðnir og fjögur börn. Tala látinna hefur nú hækkað úr 46 í 50.

Talið er að fólkið hafi látist af völdum vökvaskorts og ofþornunar en ekkert vatn fannst í bílnum sem talið er að hafi verið nýkominn yfir landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna.