Alls hafa 33 veikst og þrír látist af völdum salmonellusýkingar sem þeir fengu eftir neyslu bætiefna með trefjum frá Husk. Dönsk heilbrigðisyfirvöld segja þetta í fyrsta skipti sem salmonellufaraldur hafi brotist út vegna neyslu á bætiefnum.

Ekki er vitað hvert innihaldsefna Husk var mengað með salmonellu, sem finnst oftast í hráu eða of lítið elduðu kjöti, eggjum eða öðrum matvörum. Talsmaður Orkla Care, framleiðanda Husk, segir að engin skýr tengsl hafi fundist milli neyslu Husk og dauðsfallanna þriggja. Engu að síður hafi verið gripið til þess ráðs að innkalla allar Husk-vörur í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.