Óvenjumikið af grindhvölum eru við landið um þessar mundir en erfitt er að segja til um af hverju hvalirnir, sem eru mikil hjarðdýr, hlaupa á land.

Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun segir, aðspurður hvort hvalirnir sem komust á flot í nótt lifi af: „Það er sjálfsagt allur gangur á því. Það má alveg búast við því að einhverjir séu það skaddaðir að þeir eigi erfitt og drepist í framhaldinu þó þeir komist á flot. Þeir eru náttúrulega að berjast um í fjörunni.

Brjóstholið hjá þeim er ekki sterkbyggt svo ef þeir liggja á rifbeinunum er hætt við að það leggist saman.“

Enginn veit ástæður þess að þeir ganga á land

„Maður myndi nú ætla að það væru óvenju miklar göngur af þeim við landið núna. Þeir hafa verið ansi nálægt landi undanfarið. Göngurnar einmitt núna liggja svona nálægt landi,“ segir Sverrir við Fréttablaðið.

Það veit í rauninni enginn ástæður þess að þeir ganga á land og ýmsar kenningar eru uppi um það. Hvort það getur verið að þeir séu að elta ringlað forystudýr er ein.

Staðbundin truflun í segulsviði er önnur. Þá villast þau inn á bletti sem eru með óreglulegt segulsvið. Það er talið að ein af rötunaraðferðum hjá þeim sé að fylgja segulsviði,“ segir Sverrir sem segir hvalina hjarðdýr sem fylgist þétt að í stórum hópum. „Það geta verið jafnvel hundruð saman í hóp.“

Hvalaskoðun hafi mögulega haft áhrif

„Ég frétti af þessum tiltekna hvalahóp innar í flóanum fyrir nokkrum dögum og þá var víst hvalaskoðunin ansi aðgangshörð við hópinn. Allt að sex bátar voru í kringum hópinn í einu. Það er spurning hvort það sé að hafa áhrif líka,“ segir Sverrir.

Mikið blóðbað var í sjónum eftir slösuð dýrin og margir óóðu útí og syntu í sjónum í snertingu við hvalina.

„Það eru þekktar veirur og bakteríur sem geta borist í menn og valdið sýkingu svo það þarf að gott að hafa varann á sér með það. Það er ekki gott að snerta blóðið ef fólk er með sár,“ segir Sverrir.