„Niðurstaðan er afgerandi og skýr og í samræmi við það sem ég hef allan tíman sagt,“ segir Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður um úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli hans.

Dómurinn komst í gær að þeirri niðurstöðu að lögreglan þurfi að hafa réttmæta ástæðu til að ætla að brot hafi verið framið og að viðkomandi kunni að hafa gerst sekur um það. Svo hafi ekki verið í þessu máli að mati Héraðsdóms. Um er að ræða svokallað símamáli sem er angi af Samherjamálinu og viðskiptum félagsins í Namibíu.

„Nú er staðfest að lögreglan er að reyna að gera mig að sakborningi í rannsókn á glæp sem engar vísbendingar eru um að hafi verið framinn; hvað þá að ég hafi átt einhverja aðild að honum,“ segir Aðalsteinn.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, hafði krafist þess að Aðalsteinn og tveir aðrir blaðamenn kæmu til skýrslutöku hjá lögreglu sem sakborningar fyrir meintra brot á friðhelgi einkalífs þeirra einstaklinga sem áttu í samskiptum sem umfjöllun blaðamannanna laut að, en dómurinn hafnar þeirri kröfu.

Rannsókn á málinu hófst 14. maí síðastliðinn með kæru Páls Steingrímssonar um að honum hafi verið byrlað og friðhelgi hans brotin. Rannsóknin snerist einnig um meinta dreifingu á kynferðislegu myndefni.

Páll veiktist alvarlega og var fluttur meðvitundarlaus á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri og það með sjúkraflugi til Reykjavíkur 4. maí síðastliðinn og var meðvitundarlaus í tvo daga. Á meðan hafi margsinnis verið reynt að fara inn á aðgang hans að internetinu, Facebook, Messanger, Google og inn í heimabanka hans. Páll staðhæfir að eitrað hafi verið fyrir sér, síminn tekinn og hann afhentur fjölmiðlamönnum.

Í úrskurði dómsins er m.a. vitnaði í Mannréttindadómstól Evrópu sem hafi lagt ríka áherslu á hlutverk fjölmiðla og blaðamanna í lýðræðislegu þjóðfélagi. Skyldur ríkisvaldsins séu fyrst og fremst að halda að sér höndum og öll íhlutun í störf blaðamanna verði að vera mjög vel ígrunduð.