Farin er af stað vinna innan ríkisstjórnarinnar um stefnu og framtíðarsýn um viðbrögð við faraldrinum. „Það er umræðan núna, hvað það þýðir fyrir þjóðfélag að vera með níutíu prósenta bólusetningarhlutfall hjá sextán ára og eldri og hvernig við ætlum í alvöru að lifa með Covid í náinni framtíð og mögulega um alla framtíð,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Ríkisstjórnin kynnti í gær hertar aðgerðir innanlands sem taka gildi á miðnætti. Þær fela í sér að að hámarki 200 mega koma saman, auk þess sem veitingahúsum verður gert að loka klukkan 24. Þá verða fjöldatakmarkanir í sund og líkamsrækt.

Skýr svör eftir nokkrar vikur

„Það er alveg rétt að smit eru fleiri en vonir stóðu til hjá bólusettu fólki en vonir stóðu til,“ segir Þórdís en bendir þó á að vitað hafi verið að bólusetning kæmi ekki í veg fyrir smit heldur drægu úr veikindum. Hins vegar séu líka óbólusett fólk í landinu. Stærsti hópur þeirra séu börn sem ákveðið hafi verið að bólusetja ekki að sinni, enda mat yfirvalda að enn séu spurningum ósvarað um áhrif bólusetninga á þau.

„Það er mat sóttvarnayfirvalda að tempra þurfi smitin til að kaupa okkur tíma til að sjá hvort þessir smituðu einstaklingar verði veikir eða ekki,“ segir hún. Sóttvarnayfirvöld hafi lagt þessar aðgerðir til í tvær til þrjár vikur til að fá skýrari mynd af bæði hvort og hve margir verði veikir.

„Sóttvarnalæknir telur óvissu um það kalla á þessar aðgerðir. Við þurfum svo að vera með mjög skýr svör að þessum tíma loknum,“ segir Þórdís.

„Við þurfum að vera með mjög skýr svör að þessum tíma loknum“

„Vissulega er þetta bakslag“

„Við erum í rauninni að gefa okkur þennan tíma, í raun bara þessar tvær til þrjár vikur, til að vinna þessa vinnu og hún er farin af stað.“ segir Þórdís og vísar til stefnumótunarvinnu um lífið með COVID til framtíðar.

Hún segir að fara þurfi vel með þá samstöðu sem þjóðin hafi sýnt. Bera þurfi virðingu fyrir henni og sýna því skilning hvað fólk er búið að leggja mikið á sig.

Hún játar að það hafi vissulega verið áætlun stjórnvalda að aflétta takmörkunum þegar markmiðum um bólusetningar yrði náð.

„Svo stendur upp á okkur að svara því hvernig við ætlum að hafa hlutina til framtíðar.“

„Vissulega er þetta bakslag í því, en það er tímabundið og það eru skýrar línur um hvernig þessum tíma verði varið,“ segir Þórdís. „Svo stendur upp á okkur að svara því hvernig við ætlum að hafa hlutina til framtíðar.“

Í framtíðinni verði frekar tilmæli en valdboð

Þórdís segir að ef áfram þurfi að ganga á með skerðingum og afléttingum á víxl verði það vonandi meira í formi tilmæla.

„Vonandi er hægt að fara að tala um, ef við þurfum að fara fram og til baka eitthvað lengur að þá verði það meira í formi tilmæla. Það eru margar ógnir við það að vera á lífi og það vita allir út á hvað þetta gengur og það vita allir hvað virkar. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi líka að setja ábyrgðina í hendur hvers og eins.“

Ekki mikið högg fyrir ferðaþjónustuna

Aðspurð telur hún að nýboðaðar aðgerðir ættu ekki að vera mikið högg fyrir ferðaþjónustuna en nefnir þó að auðvitað geti margt haft áhrif á væntingar, bókanir og ferðahegðun. „Auðvitað hafa allar aðgerðir áhrif en ég myndi ekki telja að þetta væri högg,“ segir Þórdís og bendir á að enn séu söfn og veitingastaðir opnir og takmarkanir hafi oft verið meira íþyngjandi en nú.

„En ferðaþjónustan núna undanfarnar vikur hefur farið hraðar og betur af stað en við þorðum að vona og ég held að þessar aðgerðir séu ekki högg þar sérstaklega, heldur hefur þetta auðvitað áhrif á okkur í samfélaginu almennt,“ segir Þórdís.

Áfram saman í þessu sem ríkisstjórn

Aðspurð um samstöðu um aðgerðirnar í ríkisstjórninni bendir Þórdís á lengd fundarins, en hann stóð í rúma þrjá tíma.

„Þetta var langur fundur, umræðan töluverð og margt rætt. Fyrir mér er það bæði eðlilegt og heilbrigt. Mér finnst gott að sitja við borð þar sem fólk getur rætt hluti og getur verið ósammála, reynt að ná niðurstöðu og mætist í samtalinu,“ segir hún og bætir við. „Það er enginn að halda því fram að við séum ekki ólíkt fólk sem hefur ólíkar skoðanir, það er opinberbert leyndarmál þessarar ríkisstjórnar en við erum áfram saman í þessu sem ríkisstjórn," segir Þórdís. Eina vitið sé að lenda málum þannig að hægt sé að halda áfram og klára.

Ríkisstjórnin fundaði á Hótel Valaskjálf, Egilsstöðum í gær.
Gunnar Gunnarsson.

„Þegar maður er búinn að standa í þessu risastóra verkefni í allan þennan tíma þá lít ég svo á að það sé eina vitið og almenningur á það skilið að við finnum út úr því hvernig sé hægt að lenda málum þannig að hægt sé að halda áfram.“

En var niðurstaða fundarins málamiðlun?

„Þessi stefnumótunarvinna næstu tvær til þrjár vikur skiptir mjög miklu máli og að taka umræðuna á dýptina um áhrif bólusetningahlutfallsins og hvað við ætlum að sætta okkur við og hvernig við ætlum að lifa til framtíðar, það hafði áhrif á þessa ákvöðrðun stjórnarinnar núna að sú vinna sé farin af stað,“ segir Þórdís og nefnir líka að sóttvarnalæknir hafi lagt til almenna reglu um tveggja metra fjarlægð með einn meter í undantekningartilvikum.

„Niðurstaðan varð að hafa bara eina reglu og eins metra fjarlægð,“ segir Þórdís og segir muninn hafa mikil áhrif víða, til dæmis á veitingahúsum.