Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita Slysavarnafélaginu Landsbjörg fimm milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu vegna endurgerðar á vefnum safetravel.is.
Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu er bent á að Landsbjörg hafi rekið vefinn um árabil og er hann helsti upplýsingavefur almannavarna til að koma mikilvægum skilaboðum til ferðamanna, t.d. vegna óveðurs, ófærðar eða náttúruhamfara.
„Mikilvægi slysavarna ferðamanna hefur aukist á undanförnum árum samhliða mikilli fjölgun þeirra. Endurgerð vefsins safetravel.is er brýn til að auka upplýsingamiðlun og leita leiða til að ná til allra þeirra sem fara um landið,“ segir í tilkynningunni.
Landsbjörg mun áfram vinna verkefnið í samstarfi við fyrirtæki í ferðaþjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Samgöngustofu, Veðurstofuna og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.