Ríkisstjórnin sætir harðri gagnrýni frá minnihlutanum eftir yfirlýsingu formannanna þriggja í gær um að Bankasýslan verði lögð niður. Ákvörðun um þetta er tekin til að bregðast við því að framkvæmd sölu 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka stóð ekki að öllu leyti undir væntingum eins og segir í yfirlýsingu.

Stjórnmálafræðingur segir útspil ríkisstjórnarinnar óvænt og djarft.

„Ég held að ríkisstjórnarsamstarfið standi á traustum grunni en hins vegar er það svo í mínum flokki, Vinstri grænum, að þar er mjög skýr krafa á mig og okkur sem erum þar í forystu að tryggja það að hér verði allt uppi, allt upplýst því þetta er stórmál að okkar viti,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Fréttavaktinni á Hringbraut í gær.

Hún segir gagnaflæði og upplýsingamiðlum í aðdraganda sölunnar hafa brugðist. „Það var okkar ákvörðun um að birta listann yfir kaupendur sem Bankasýslan vildi ekki birta.“

Fulltrúar minnihlutans á Alþingi gefa lítið fyrir skýringar ríkisstjórnarinnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, kallar eftir því að þingið komi tafarlaust saman til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu.

„Það er verið að refsa Bankasýslunni fyrir það sem ríkisstjórnin ákvað,“ segir Þorgerður og nefnir að hin misheppnaða bankasala hafi líka eyðilagt fyrir þeim sem vilja ekki að ríkið sé stór leikandi á bankamarkaði. Í yfirlýsingu stjórnarinnar kemur fram að ekki verði meira selt í Íslandsbanka að sinni og verður ákvörðun um slíkt tekin eftir uppstokkun kerfisins.

„Þetta var alveg fyrirsjáanlegt og augljóslega gert til að frýja fjármálaráðherra ábyrgð sem hann ber svo sannarlega, á dæmalausri framkvæmd málsins,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, tekur í svipaðan streng.

„Það á greinilega að gera Bankasýsluna að eina sökudólginum og láta eins og þáttur fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar sé enginn,“ segir hún.

Hún segir að yfirlýsingin sé þó viðurkenning á að bankasalan hafi verið klúður. Sjálf telur hún söluna krefjast óháðrar rannsóknarskýrslu með ríkar heimildir. Fjármálaeftirlitið sé rúið trausti.

Stjórnarliðar virðast hins vegar sáttir við yfirlýsinguna. Helgi Héðinsson, varaþingmaður Framsóknarflokksins, var einn af þeim harðorðustu fyrr í mánuðinum og lýsti sölunni sem „hneyksli“, „dæmalausu klúðri“ og „miskunnarlausri sérhagsmunagæslu“ fyrir föður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.

Nú segist hann ánægður með að verið sé að taka af skarið með afgerandi hætti í ljósi þeirrar gagnrýni sem fram hafi komið. „Ég treysti því að fólk standi heilshugar á bak við þessa úrlausn,“ segir Helgi. Segist hann ekki líta svo á að verið sé að henda embættismönnum fyrir vagninn.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist ekki geta talað fyrir alla flokksmenn en hún sé ánægð með yfirlýsinguna. Aðspurð svarar hún því ekki hvort að yfirlýsingin sé viðurkenning ríkisstjórnarinnar á að bankasalan hafi verið klúður. Mörgum spurningum sé hins vegar ósvarað. „Framkvæmdin var ekki eins og við töldum okkur vera að leggja upp með,“ segir Steinunn.

Aðspurð um stöðu fjármálaráðherra segir Steinunn ekki kalla eftir að hann segi af sér. Mikilvægt sé að Bjarni hafi beitt sér fyrir að kaupendalistinn hafi verið birtur og að málið sé rannsakað.

Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur segir það vekja athygli hve Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra standi þétt við bak Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í þessu máli.

„Það sem skiptir ríkisstjórnarflokkana mestu er að tryggja stöðugleika á stjórnarheimilinu og að stjórnin hreinlega haldi velli,“ segir Baldur.

Erfiðara sé að segja til um hvort útspilið, sem Baldur kallar bæði óvænt og róttækt, lægi öldurnar í samfélaginu.

„Ég hafði ekki séð þá kröfu fyrir að Bankasýslan yrði lögð niður – þannig að út frá pólitíkinni er þetta snjallt útspil sem kemur mörgum á óvart. Með þessu er stjórnin að segja að Bankasýslan beri ábyrgð og hafi klúðrað málinu illilega.

Baldur segir að það hve þétt forsætisráðherra hafi staðið með fjármálaráðherra styrki stöðu Bjarna Benediktssonar verulega í ríkisstjórninni og ekki síst í bankasölumálinu. „Katrín stendur miklu nær Bjarna í þessu máli en þegar Sigurður Ingi lét óviðurkvæmileg orð falla. Þá vísaði hún til siðareglna og sagði að ráðherrar þyrftu að lúta þeim.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra vísar á bug að hún standi þéttar við bak Bjarna en Sigurðar Inga. Innt viðbragða við orðum stjórnmálafræðingsins segir Katrín að fyrst þegar mál formanns Framsóknarflokksins kom upp hafi hún sagt að hún tæki fullt mark á afsökunarbeiðni Sigurðar Inga.

„Út frá pólitíkinni er þetta snjallt útspil sem kemur mörgum á óvart. Með þessu er stjórnin að segja að Bankasýslan beri ábyrgð og hafi klúðrað málinu illilega,“ segir Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði.

„Það er stutt síðan Bjarni sjálfur sagði að allir ættu jú að vera jafnir fyrir lögum. Hér eru heilu stofnanirnar lagðar niður og lögum breytt svo enginn þurfi að segja hið augljósa; fjármálaráðherra er ekki sætt eftir að hafa selt pabba sínum og viðskiptafélögum úr hruninu bankann,“ segir Atli Þór Fanndal hjá Transparency Iceland. Bjarni hafa aldrei verið hæfur til að selja bankana. „Hann verður ekkert hæfari þótt þau þrjú ákveði að loka bankasýslunni.“