Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að það sé bjartsýni sem ríki innan stjórnarflokkanna sem mynda ríkisstjórn Íslands. Þetta kom fram í stefnuræðu Katrínar á Alþingi í kvöld.

„Ríkisstjórnin mun ganga til verka sinna full bjartsýni og ég hlakka til að eiga gott samstarf við þingmenn alla, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu

Um leið talaði Katrín um mikilvægi í aðgerðum íslensku ríkisstjórnarinnar þegar kemur að loftslagsvánni og bætti við að ekki yrði gefið út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands.

„Um það verður ekki deilt að loftslagsváin er stærsta áskorun samtímans. Ísland á að vera fremst meðal jafningja í loftslagsmálum, standa fast við skuldbindingar okkar gagnvart Parísarsamningnum og gott betur en það,“ sagði Katrín og hélt áfram:

„Allar aðgerðir okkar og áætlanir miða að því marki að Ísland verði lágkolefnishagkerfi sem nái kolefnishlutleysi ekki síðar en árið 2040. Ný ríkisstjórn hefur tekið þá ákvörðun að setja sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands og skýr, áfangaskipt markmið um samdrátt í losun í einstaka geirum í samstarfi við atvinnulífið og sveitarfélögin. Það á ekki að koma neinum á óvart að þessi ríkisstjórn mun ekki gefa út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands, enda væri slík vinnsla í hrópandi ósamræmi við stefnu okkar sem hvílir á hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum. “

Katrín talaði einnig um mikilvægi þess að unnið yrði að jafnrétti kynjanna og að kveða niður kynbundið og kynferðislegt ofbeldi.

„Nýleg rannsókn Hagstofu Íslands sýndi minnkandi launamun á undanförnum árum hjá ríki, sveitarfélögum og hinum almenna markaði og bendir könnunin til þess að sá munur sem enn er fyrir hendi tengist einkum hinum kynskipta vinnumarkaði. Kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni verður áfram forgangsmál, forvarnaáætlun fylgt eftir af krafti og frumvarp til að bæta réttarstöðu brotaþola verður lagt fram aftur. Þá verður unnið að sérstakri aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks.“

Katrín segist sjá sé mælanleg viðspyrna innan hagkerfisins sem megi rekja til aðgerða síðustu ríkisstjórnar.

„Við búum að því að hafa getað nýtt styrk ríkisfjármálanna til að styðja við efnahag og afkomu heimila og fyrirtækja í faraldrinum. Sá stuðningur hefur skilað sér í kröftugri viðspyrnu hagkerfisins. Atvinnuástandið hefur batnað hratt og horfur til framtíðar eru bjartari en áður.“

Atvinnuástandið hefur batnað hratt og horfur til framtíðar eru bjartari en áður.

Katrín talaði um leið um mikilvægi þess að huga að eldri fólki til að bæta lífsgæði þeirra og þeirra sem lakast standa.

„Lengri lífaldur og fjölgun eldra fólks á næstu áratugum kallar á nýjar leiðir til að tryggja sem best lífsgæði og gera fólki kleift að vera virkt í leik og starfi eftir fremsta megni. Ná þarf betri sátt um lífeyriskerfið og bæta afkomu þeirra sem lakast standa í hópi eldra fólks.“

Forsætisráðherran vildi um leið þakka því starfsfólki innan heilbrigðisgeirans sem hefur komið að því að vinna í tengslum við heimsfaraldurinn sem hefur gengið yfir í tæp tvö ár.

„Marga lærdóma verður hægt að draga af faraldrinum – fagmennska og fumleysi hefur einkennt skipulag bólusetninga hjá heilsugæslu og heilbrigðisstofnunum, upplýsingagjöf landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarna hefur tryggt ábyrga umfjöllun. Raðgreiningar Íslenskrar erfðagreiningar eru mikilvægt framlag til þekkingar heimsbyggðarinnar á útbreiðslu veirunnar. Ég vil, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri til að ítreka þakkir mínar til allra þeirra sem hafa staðið í framlínu baráttunnar við veiruna nú í hátt á annað ár.“