Ríkis­stjórnar­flokkarnir missa meiri­hluta á þingi miðað við nýjan þjóðar­púls Gallup. Flokkarnir þrír myndu að­eins ná 30 þing­mönnum inn á þing. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Fylgi Vinstri grænna dregst nokkuð saman frá síðasta þjóðar­púlsi og mælist nú 10,2% en það myndi skila flokknum sex þing­mönnum. Flokkurinn fékk ellefu þing­menn kjörna í síðustu kosningum.

Fylgi Sjálf­stæðis­flokksins minnkar einnig á milli kannana en hann er þó enn þá stærstur með 21,2% fylgi. Sjálf­stæðis­flokkurinn myndi því tapa einum þing­manni og fara úr 16 þing­mönnum í 15.

Sókn Fram­sóknar­flokksins heldur á­fram en flokkurinn mælist nú með 13,2% fylgi. Hann næði því níu þing­sætum.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur missir meirihluta á þingi, samkvæmt nýjum þjóðarpúls.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Fylgi Sam­fylkingarinnar er í sam­ræmi við niður­stöður síðustu kosningar en flokkurinn mælist með 12,7% fylgi sem gæfi átta þing­menn.

Við­reisn mælist með 10,2% fylgi og fengi sex þing­menn. Píratar fá sjö þing­menn með 11,5%.

Stærsta breytingin á milli kannana er á fylgi Flokk fólksins en hann fer úr 5% fylgi í 7% fylgi og fengi því fjóra þing­menn.

Sam­kvæmt þessum niður­stöðum er þriggja flokka ríkis­stjórn ó­mögu­leiki nema Sam­fylkingin, Fram­sókn og Sjálf­stæðis­flokkurinn myndi ríkis­stjórn en Sam­fylkingin hefur úti­lokað sam­starf með þeim síðast­nefnda.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.

Gallup framdi könn­un­ina fyr­ir frétta­­stofu RÚV dag­ana 13. til 19. Sept­em­ber. Könn­un­in var net­könnun og lögð fyr­ir 3.845 ein­stak­linga. Þát­töku­hlut­­fall var 52,5 pró­­sent.

Út­reikn­ing­ur á út­hlut­un þing­­sæta tók mið af niður­­­stöðum í hverju kjör­­dæmi fyr­ir sig og var jöfn­un­ar­­sæt­um út­hlutað miðað við niður­­­stöður á lands­vísu.

Hægt er að sjá heildar­niður­stöðurnar hér.