Ríkisstjórnin áætlar að taka á móti 100 kvótaflóttamönnum á næsta ári. Er um að ræða fjölmennasta hópinn frá því að íslensk stjórnvöld hófu að taka á móti flóttafólki í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.

Til stóð að taka móti 85 kvótaflóttamönnum á þessu ári en Flóttamannastofnun SÞ stöðvaði flutnings flóttafólks tímabundið fyrr á þessu ári vegna heimsfaraldurs kórónaveiru.

Ólíklegt að 85 komi hingað í ár

Er það nokkur aukning frá síðustu árum en tekið var á móti 74 kvótaflóttamönnum í fyrra og 52 árið 2018. Þetta kemur fram í svari félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utan flokka.

Þar segir að ólíklegt sé talið að sá hópur sem fyrirhugað var að taka á móti á yfirstandandi ári nái að koma hingað fyrir áramót vegna þeirra tafa og óvissuþátta sem upp hafi komið í móttökuferlinu. Þó verði mikið kapp lagt á að það gerist sem fyrst.

Fram kemur í svarinu að Útlendingastofnun og embætti ríkislögreglustjóra hafi nú lokið yfirferð skýrslna um þá einstaklinga sem Flóttamannastofnun SÞ hafi óskað eftir að íslensk stjórnvöld taki á móti. Næsta skref sé að taka viðtöl við hverja fjölskyldu sem hafi ekki verið unnt að gera enn sem komið er.

Frá Líbanon, Keníu og Íran

Eru margir óvissuþættir sagðir vera í tengslum við móttöku næsta hóps flóttamanna en í ljósi fyrri reynslu megi ganga út frá því að lágmarki þrír mánuðir muni líða frá því að viðtölum ljúki og þar til hópurinn komi til Íslands.

„Ástæðan er sú að í flestum tilvikum þarf að útvega ferðagögn, taka myndir fyrir ferðaskilríki og útvega útgönguleyfi frá þarlendum stjórnvöldum sé þess krafist en sá ferill getur tekið langan tíma.“ Þá hafi flugsamgöngur raskast verulega.

Undir lok síðasta árs gaf ríkisstjórnin út að í ár yrði tekið á móti flóttafólki sem dvalið hafi í Keníu, sýrlensku flóttafólki frá Líbanon og afgönsku flóttafólki frá Íran.