Ríkisstjórnin heldur velli samkvæmt lokatölum úr öllum kjördæmum sem birtust í morgun, með 37 þingmenn af 63 en var áður með 33 þingmenn.

Framsókn stendur undir nafni og bætir við sig fimm þingmönnum, Sjálfstæðisflokkurinn stendur í stað sem stærsti flokkurinn á þingi og Vinstri græn fara úr 11 þingmönnum niður í 8, en þar af sögðu tveir sig úr flokknum á kjörtímabilinu.

Flokkur fólksins var einnig í stórsókn og bætti við sig tveimur þingmönnum og Viðreisn bætir við sig einum þingmanni. Píratar standa í stað.

Samfylkingin tapar einum þingmanni og Miðflokkurinn fjórum. Sósíalistar ná ekki inn á þing.

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur segir ríkisstjórnarflokkana vera með pálmann í höndunum ef þeir vilja halda áfram. Telur hann þó vafasamt að hafa eins manns meirihluta í stjórn.