Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra mælti fyrir stjórnarfrumvarpi sínu um að stöðva verkfall flugvirkja vegna þess neyðarástands sem hefur skapast vegna skorts á björgunarþyrlu hjá Landhelgisgæslunni. Ekki er hægt að tryggja öryggi sjómanna án björgunarþyrlu og sama gildir víða um land þar sem erfitt er að lenda sjúkraflugvél.

Umræða um frumvarpið er nú í gangi á Alþingi og hefur hitnað í kolunum milli ráðherra og þingmanna.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði þingflokk sinn ætla að sjálfsögðu að styðja þetta frumvarp en sagði þessa „fráleitu“ stöðu vera á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna og ráðherra en ríkisstjórnin hefur enn ekki náð að semja við flugvirkja.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokks, tók í sama streng og Þorgerður Katrín. „Þingflokkur Miðflokksins telur ekki forsvaranlegt að bæta á óvissu landsmanna, ekki síst sjómanna og þeirra sem búa við óöryggi, um að öryggismál landsmanna sé í uppnámi til lengri tíma.við munum því styðja þetta frumvarp alla leið,“ sagði Gunnar Bragi.

Ástæðulaust að grípa fram fyrir hendurnar fyrr

Dómsmálaráðherra sagði á þingi að þessi ákvörðun, um að stöðva verkfall flugvirkja, væri til þess að tryggja að Landhelgisgæslan geti haldið úti nauðsynlegri öryggis- og björgunarþjónustu. Ekki hafi náðst að semja við Flugvirkjafélag Íslands.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Landhelgisgæslunni, mikilvægi hennar í að tryggja öryggi almennings og ekki síst starfsmönnum hennar og skipum og loftförum sem leggja sig gjarnan í mikla hættu við leit og björgun á landi og hafi úti. Það er rétt að hafa í huga að allar þær stéttir sem eru í áhöfnum skipa og í loftförum Gæslunnar hafa ekki verkfallsrétt með vísan til almannahagsmuna,“ sagði ráðherrann á þingfundi í dag.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, gagnrýndi ráðherrann og sagði þessa stöðu vera alfarið á hennar ábyrgð. Hún hefði átt að huga að þessum vanda miklu fyrr. „Það er pólitísk ábyrgð dómsmálaráðherra að við erum hér stödd í dag að slökkva þennan eld sem hér logar,“ sagði Þorbjörg.

Sagði Áslaugu Arna að það hafi verið ástæðulaust að grípa fram fyrir hendurnar á samninganefndinni sem annaðist málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þangað til að kjaraviðræðurnar sigldu í strand. „Það er ekkert annað í stöðunni en að tryggja öryggi almennings með því að setja stopp.“