Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingkona Pírata gerðu Samherjamálið báðar að umtalsefni á eldhúsdegi í kvöld.

Þorgerður Katrín sagði sorglegt að fylgjast með viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við málinu.

Stjórn með silkihanska

„Oddvitar ríkisstjórnarflokkana hafa sett upp silkihanskana í gagnrýni sinni og muldrað sakleysisleg orð um að þetta sé óviðeigandi og óeðlilegt. Þannig gengisfella þeir alvöruna í málinu því samsæri stórfyrirtækis gegn blaðamönnum er ekki bara óviðeigandi heldur einnig árás á lýðræðislega umræðu,“ sagði Þorgerður og minnti á að orð skipti máli.

„Oddvitar ríkisstjórnarflokkana hafa sett upp silkihanskana í gagnrýni sinni og muldrað sakleysisleg orð um að þetta sé óviðeigandi og óeðlilegt.“

„En það þarf hins vegar engum að koma á óvart að formenn ríkisstjórnarflokkanna, þeir nota bara inniröddina þegar kemur að sérhagsmunum stórútgerðarfyrirtækja,“ sagði Þorgerður. Þetta sé í samræmi við algjörlega tannlaust auðlindarákvæðið sem forsætisráðherra hefur lagt fyrir þingið og mun ekki breyta nokkrum sköpuðum hlut verði það samþykkt. Það ákvæði er friðþæging fyrir útgerðina meðan að hlutur þjóðar er skilinn eftir,“ sagði Þorgerður.

Viðtalið sem markaði tímamót

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hóf ræðu sína á að minnast viðtals við seðlabankastjóra þess efnis að landinu væri að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum sem meiriháttar mál sé að lenda upp á kant við. Sagði Þórhildur Sunna viðtalið hafa markað tímamót og opnað hafi verið á mikilvægt samtal.

Leiðtogar ríkisstjórnarinnar hafi ekki haft áhuga á því samtali sagði hún og vísaði til viðbragða fjármálaráðherra við viðtalinu. Hann hafi sagt að embættismenn með mikil völd verði auðvitað að vita það að ef þeim er misbeitt að þá geti það haft afleiðingar.

„Þá vitum við það. Fjármálaráðherrann, sem aldrei hefur sætt afleiðingum fyrir að misbeita valdi sínu, sama hversu gróflega hann gerir það, vill að starfsfólk eftirlitsstofnana óttist afleiðingar eftirlitsstarfa sinna,“ sagði Þórhildur Sunna og bætti við:

„Rétt eins og fjölmiðlamenn eiga að óttast afleiðingar afhjúpanna sinna, eins og skáld og fræðimenn eiga að óttast afleiðingar gagnrýni sinnar og jafnvel ráðherrar sem hagsmunahóparnir hafa ekki í vasanum eiga að óttast afleiðingar orða sinna í þessum ræðustól,“ sagði hún og spurði hvort þetta sé ákjósanlegt samfélag.

„Er þetta samfélagið sem við viljum - samfélag meðvirkni, afkomuótta og samtryggingar? Samfélag, þar sem er verra benda á brotin en að fremja þau,“ spurði Þórhildur Sunna.