Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að greiða tvo þriðju af kostnaði við hreinsunarstarf á Seyðisfirði vegna hamfaranna í síðasta mánuði en hann hleypur á hundruðum milljón króna miðað við grófa áætlun. Ríkisstjórnin mun einnig veita fimm milljónum króna til björgunarsveitarinnar Ísólfs á Seyðisfirði. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Þrettán hús við Hafnargötu á Seyðisfirði og eitt við Austurveg eru hrunin eða alveg horfin eftir skriðurnar sem féllu um miðjan desember. Sérfræðingar segja tjónið vera gríðarlegt og það muni taka mörg ár að meta það. Starfshópur á vegum stjórnvalda hefur verið skipaður til að reyna að ná utan um hversu mikið heildartjónið er.

Í minnisblaði Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, sem lagt var fyrir ríkisstjórn í morgun segir að umfangsmikið starf sé framundan við að tryggja öryggi í bænum til frambúðar.

Ekki liggur fyrir endanleg kostnaðaráætlun en ætla má að uppgröftur og hreinsunarstarf sem nú er hafið í bænum komi til með að kosta á bilinu 300-600 milljónir en hér er aðeins um grófa áætlun að ræða varðandi tiltekna þætti hreinsunarstarfsins. Við álíka hamfarir undangengin ár hefur ríkið greitt tvo þriðju kostnaðar við slíkar aðgerðir en sveitarfélögin hafa greitt þriðjung af þeim kostnaði sem hlýst af hamförunum. Líklega mun heildarkostnaður vegna tjónsins ekki liggja fyrir fyrr en í vor eða síðar.   

Þá var á fundi ríkisstjórnarinnar lagt fram minnisblað Ásmundar Einars Daðasonar, mennta – og menningarmálaráðherra um tjón á Tækniminjasafninu og friðuðum húsum en starfshópur ríkisstjórnarinnar mun fjalla sérstaklega um menningarlegt gildi byggðarinnar.

Að lokum var lagt framminnisblað Guðmundur Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, um skriðuföllin, vöktun Veðurstofunnar og uppbyggingu ofanflóðavarna.