Ríkis­stjórnin fundar klukkan 9 á eftir og má gera ráð fyrir að þar verði ræddar til­lögur sótt­varna­læknis sem hann sendi Svan­dísi Svavars­dóttur heil­brigðis­ráð­herra í gær. RÚV greindi fyrst frá.

Búist er við að sam­komu­tak­markanir verði hertar fyrir verslunar­manna­helgi og sagði Alma Möller land­læknir í kvöld­fréttum RÚV í gær að hún teldi að aftur ætti að koma á tveggja metra reglunni.

Ó­ljóst er þó í hverju til­lögur sótt­varna­læknis felast ná­kvæm­lega. Þær gætu einnig snúið að því að herða að­gerðir við landa­mærin, til dæmis hefur þeim mögu­leika verið velt upp að ferða­menn verði einnig skikkaðir til að við­hafa heim­komu­smit­gát.

Heil­brigðis­ráð­herra þarf að leggja til­lögurnar fram til ríkis­stjórnarinnar sem síðan sam­þykkir þær áður en þær taka gildi.

Þá er búist við því að boðað verði til blaða­manna­fundar eftir fund ríkis­stjórnarinnar þar sem hertar að­gerðir verða kynntar. Slíkur fundur hefur þó enn ekki verið boðaður.