Ríkisstjórnin samþykkti á dögunum tillögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um að taka sérstaklega á móti fjölskyldum ungra afganskra flóttamanna sem fengu vernd á Íslandi eftir 18 ára aldur.

Ráðherra fól flóttamannanefnd að útfæra tillögur um sérstaka móttöku þessa hóps hingað til lands í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar fyrr í vetur um að taka sérstaklega á móti fólki í viðkvæmri stöðu frá Afganistan.

Guðmundur Ingi segist hafa farið að huga sérstaklega að því hvort Ísland gæti tekið á móti fólki frá Afganistan sem væri sérstaklega jaðarsett vegna valdatöku Talibana, eftir að hann tók við embætti í nóvember 2021.

„Við erum að fá fréttir og höfum verið að fá fréttir af því á síðustu mánuðum að Talibanar eru að útiloka stúlkur frá námi og gera konum mjög erfitt fyrir að taka þátt í samfélaginu, meðal annars með því að þær megi ekki fara út fyrir hússins dyr nema brýna nauðsyn beri til og þá með karlmanni,“ segir hann.

Í tilkynningu frá stjórnarráðinu segir að í aðgerðum stjórnvalda verði „horft sérstaklega til fjölskyldusameiningar við einstaklinga sem fengu alþjóðlega vernd hér á landi eftir 18 ára aldur en voru fæddir árið 2000 eða síðar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.“ Búist er við því að hægt verði að bjóða á milli 50 og 60 manns á þessum forsendum.

„Auðvitað er það þannig að það eru fjölskyldur þar sem kannski fjölskyldufaðirinn er fallinn frá og þess vegna fórum við og litum á þetta og útfærðum þetta þannig að við séum að taka sérstaklega á móti fjölskyldum ungra afganskra flóttamanna hérlendis sem hafa fengið hérna vernd. Þá erum við að horfa til fjölskyldna þar sem um er að ræða einstæðar mæður og börn þeirra eða ef fjölskyldufaðirinn er fatlaður og reiðir sig á afkomu og umönnun annarra vegna fötlunar sinnar,“ segir Guðmundur Ingi.

Þá er einnig lagt til að fjölskyldusameiningar nái til fjölskyldna sem dvelja í nágrannaríkjum við Afganistan eins og á við um almennar fjölskyldusameiningar. Að sögn Guðmundar Inga var þörf á að afmarka hópinn að einhverju leyti þótt ljóst sé að neyðin í Afganistan sé gífurleg um þessar mundir. Til dæmis hefur mikil hungursneyð og skortur á nauðsynjavörum plagað landið síðustu mánuði, auk þess sem stjórn Talibana hefur þrengt að mannréttindum þegna sinna til muna.

„Neyðin þarna er bara ofboðslega mikil. Það er auðvitað afar brýnt að mínu mati að reyna að mæta þessum hópi með einhverjum hætti,“ segir ráðherra.

Að hans sögn mun það þó vera töluverð áskorun að koma flóttamönnunum hingað til lands.

„Það er ekkert einfalt mál og það var líka erfitt í þessum hópi sem kom með ákvörðuninni í ágúst, þar var síðasta fólkið að koma rétt fyrir jól. Það er bara stór áskorun sem við einhendum okkur í núna þegar þessi ákvörðun liggur fyrir og reynum að eiga samstarf um það við aðrar þjóðir eða önnur ríki sem eru ennþá að taka á móti flóttafólki frá Afganistan.“

Í kjölfar valdatöku Talibana í ágúst 2021 bauð ríkisstjórnin 120 Afgönum hæli á Íslandi sem voru með tengsl við Ísland fyrir.

Að tillögu flóttamannanefndar var sérstök áhersla lögð á einstaklinga sem unnu fyrir NATO, fyrrverandi nemendur við Alþjóðlega jafnréttisskólann á Íslandi og einstaklinga sem áttu rétt á fjölskyldusameiningu eða voru þegar komnir með samþykkta umsókn um dvalarleyfi. Guðmundur segir 83 einstaklinga hafa þegið boðið en einhverjir fengu vernd annars staðar. Spurður um hvernig þessu fólki hafi farnast á Íslandi segir ráðherra:

„Ég veit ekki betur en það sé í góðum farvegi en það eru alltaf stórar áskoranir þegar fólk kemur. Sérstaklega þar sem um mikla neyð er að ræða, alveg sama hvort hún er vegna mannréttindabrota eða stríðs eða fátækar. Það er mjög fjölbreyttur vandi sem þetta fólk á oft við að etja, en það að geta boðið því vernd, við erum bara rík þjóð, og það er náttúrlega bara óskaplega gott að geta gert það.“