Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og varaforseti ASÍ hefur í dag gagnrýnt harðlega launahækkanir forstjóra Landsvirkjunar. Fréttablaðið greindi frá því á laugardag að árslaun forstjórans hafa hækkað um 21 milljón á 5 árum. Launin voru 20 milljónir árið 2014 en eru í dag 41 milljón. Hefur forstjórinn 3,4 milljónir í laun á mánuði.

Vilhjálmur hefur tjáð sig í dag á samfélagsmiðlun og bendir á að heildarlaun hans nálgist samanlögð laun forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Vilhjálmur birtir skopmynd og segir:

„Það er allavega orðið morgunljóst að forstjóri Landsvirkjunar á Íslandsmetið í 100 metra höfrungahlaupi!“

Í samtali við Fréttablaðið segir Vilhjálmur hækkanirnar ekki vera í neinum takt við það sem gerist hjá almenningi.

„Mér finnst þær gjörsamlega glórulausar enda ekki í nokkrum takti við neitt sem hefur verið að gerast í launahækkunum hjá hinum almenna Íslendingi. Mér finnst 105% launahækkun bera sterkan vott um taumlausa græðgi.“

Vilhjálmur birti þessa skopmynd frá árinu 2018 og segir hana eiga vel við í dag

Aðspurður um hvort það ætti að lækka laun forstjórans segir Vilhjálmur það algjörlega koma til greina. Það geti ekki staðist neina skoðun að einn ríkisforstjóri sé að nálgast samanlögð laun hjá forsætisráðherra og fjármálaráðherra.

Þá gagnrýnir Vilhjálmur Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra þegar hann er inntur eftir hver beri að hans mati ábyrgð á þessum miklu launahækkunum. Vilhjálmur segir:

„Það á víst að vera stjórn Landsvirkjunar sem ber ábyrgð á þessari gríðarlegri launahækkun en það er alls ekki hægt að horfa framhjá því að Landsvirkjun heyrir undir fjármálaráðherra og því getur hann ekki frekar en ríkisstjórnin í heild sinni skotið sér undan ábyrgð á þessari miklu launahækkun.“