Ríkisstjórnin bætir við sig fylgi meðal kjósenda degi fyrir Alþingiskosningar miðað við nýja könnun Gallup. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír fá 50 prósent fylgi og fengju 35 þingmenn yrðu þetta niðurstöður kosninganna.
Ríkisútvarpið greinir frá könnuninni. Er hún í takti við niðurstöður kannanna Maskínu og MMR, þar sem ríkisstjórnin hélt einnig velli, naumlega þó.
Níu flokkar inni
Í könnun Gallup mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 23,4 prósent fylgi, Framsókn 14,9 prósent fylgi og VG með 12,0 prósent.
Samfylkingin er stærst stjórnarandstöðuflokka með 12,6 prósent, Viðreisn með 9,2 prósent fylgi og Píratar með 8,8 prósenta fylgi. Miðflokkurinn 6,8 prósent, Flokkur fólksins með 6,4 og Sósíalistar með 5,3 prósent.
Stjórnarandstaðan yrði þar með með 28 þingmenn gegn 35 þingmönnum ríkisstjórnarinnar. Er þetta öruggari meirihluti en hingað til hefur sést í knönunum. Gallup könnunin var gerð dagana 20. til 24. september og svöruðu 4839 manns. Þáttaka var 51,9 prósent.